Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Þriðjudaginn 16. nóvember 1999, kl. 19:51:21 (1544)

1999-11-16 19:51:21# 125. lþ. 26.3 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 125. lþ.

[19:51]

Einar K. Guðfinnsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sér það hvert mannsbarn að fullkomin mótsögn er í því fólgin að leggja fram tillögu um að setja mál í umhverfismat sem allir vita hvað þýðir, þ.e. að það fer fyrst til Skipulagsstofnunar og síðan til úrskurðar umhvrh., en vera á sama tíma með hugmyndir um allt aðra nýtingu á þessu svæði en virkjun. Sé það niðurstaða Skipulagsstofnunar eða umhvrh. að heimila virkjun, þá er það auðvitað augljós mótsögn gagnvart þeirri þáltill. sem hv. þm. stendur að. Þetta er bara einföld rökfræði sem við þurfum ekki einu sinni ekki að deila um. Ég held að þetta sjái hvert einasta mannsbarn og það hefur margoft komið fram í umræðunum í dag.