Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Þriðjudaginn 16. nóvember 1999, kl. 19:57:53 (1548)

1999-11-16 19:57:53# 125. lþ. 26.3 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 125. lþ.

[19:57]

Einar K. Guðfinnsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ástæðan fyrir því að ég stend í því sem hv. þm. kallaði skylmingar er ósköp einföld. Ég er að reyna að draga fram skoðun og afstöðu hv. þm., talsmanns Samfylkingarinnar í þessu máli. (RG: Hún liggur ljóst fyrir.) Nú er komið að því að ég kemst ekki í fleiri andsvör við hv. þm. Mér hefur ekki tekist þetta ætlunarverk mitt. Mér finnst að hv. þm. hafi verið að slá úr og í í allan heila dag og alveg sérstaklega núna í þessum orðaskiptum okkar í kvöld. Ég lýsi eftir afstöðu hv. þm. Mér finnst að vísu að hv. þm. sé að senda þau boð að hún hafi efasemdir um fyrri afstöðu sína í málinu. Hún hefur líka sproksett svolítið hv. þm. Össur Skarphéðinsson (RG: Það er ekki rétt.) fyrir að hafa heimilað að leggja háspennulínu yfir hálendið, en betur hafa, held ég, línurnar ekki skýrst og ekki heldur afstaðan gagnvart þessu máli. Spurningin er hvort hv. þm. hafi haldið fram röngum málstað fyrir örfáum árum síðan, alveg fram að árinu 1995 þegar við a.m.k. hættum að verða samferða í ríkisstjórnarsamstarfi sem hafði það að markmiði að reisa álver. Mér finnst einhvern veginn að hv. þm. hafi ekki skýrt nægilega vel sinnaskiptin ef þau hafa þá orðið í þessu máli.