Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Þriðjudaginn 16. nóvember 1999, kl. 20:05:45 (1553)

1999-11-16 20:05:45# 125. lþ. 26.3 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, BH
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 125. lþ.

[20:05]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Herra forseti. Mál það sem Alþingi hefur til meðferðar hér er eitt það viðamesta sem við höfum staðið frammi fyrir um langan tíma. Ég tek stórt upp í mig en fyrir því eru margar ástæður. Sú málsmeðferð sem boðið er upp á í málinu er vítaverð og vægast sagt hið mesta klúður. Málið hefur vakið upp miklar deilur í þjóðfélaginu sem ekki sér fyrir endann á. Þetta mál og meðferð þess er einkum gagnrýnd fyrir þrjú atriði.

Í fyrsta lagi er deilt á þá málsmeðferð að framkvæmdin fari ekki í umhverfismat samkvæmt lögunum frá 1993.

Í öðru lagi eru uppi efasemdir um arðsemi virkjunarinnar.

Í þriðja lagi eru margir þeirrar skoðunar að áhrifin á byggðaþróun séu stórlega ofmetin.

Á síðustu áratugum hefur stjórnmálaumræðan um heim allan tekið æ frekara mið af umhverfismálum. Ísland er engin undantekning í þessum efnum. Stjórnmálamenn eins og aðrir landsmenn verða æ meðvitaðri um mikilvægi umhverfismála og að þau séu sjálfsagður liður í allri stjórnmálaumræðu. Á síðasta áratug má segja að bylting hafi átt sér stað í þessum efnum og lögin frá 1993 um mat á umhverfisáhrifum eru liður í þeirri þróun ásamt stofnun sérstaks umhverfisráðuneytis árið 1990.

Bráðabirgðaákvæði laganna um mat á umhverfisáhrifum hefur verið mikið til umræðu í tengslum við þessa framkvæmd, enda byggir ríkisstjórnin málsmeðferðina algerlega á því. Ég ætla ekki að taka afstöðu til þeirrar deilu sem hér hefur komið upp um lögmæti málsmeðferðarinnar sem slíkrar. Ég vek hins vegar athygli á því að lögfræðinga greinir á um hvort unnt sé að undanþiggja Fljótsdalsvirkjun umhverfismati. Þar er ég að sjálfsögðu að vísa til þess sem komið hefur fram í viðtölum við Aðalheiði Jóhannsdóttur lögfræðing sem nú stundar doktorsnám í umhverfisrétti. Hún átti m.a. þátt í að semja texta laganna um mat á umhverfisáhrifum á sínum tíma og þekkir þar af leiðandi vel til þessara mála. Hún hefur bent á það að þetta sé vafasamt og geti m.a. stangast á við tilskipan ESB um efnið.

Síðan hafa komið fram andsvör gegn þessu m.a. af hálfu Þorgeirs Örlygssonar sem væntanlega hefur einnig þekkingu á þessu máli. Ég treysti mér ekki til að taka afstöðu í þessari lagaþrætu en nefni hana til sögunnar sem röksemd fyrir því á hve hæpnum stoðum þetta mál stendur. Sú röksemd bendir til þess að öruggara sé að hafa engan vafa á og senda þessa framkvæmd í umhverfismat á grundvelli laganna frá árinu 1993 og menn falli frá fyrri áformum um að víkja framkvæmdinni undan þeim.

Talsmenn ríkisstjórnarinnar hafa gert lítið úr þeim röksemdum Samfylkingarinnar að málið eigi að fara í umhverfismat og við séum tilbúin til að láta þá niðurstöðu ráða afstöðu okkar í málinu. Ég tel slíka afstöðu þvert á móti ábyrga og vísa á bug fullyrðingum um að henni ráði tómur heigulsháttur, eins og hér hefur komið fram í umræðum. Frekar má segja að því ráði heigulsháttur þegar menn þora ekki að senda framkvæmdir í umhverfismat og verða þar af leiðandi við mjög háværum kröfum um það efni, þrátt fyrir að þeir geti hengt sig í gömul lagaákvæði um að framkvæmdin sé undanþegin slíku mati.

Hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir varaði við því fyrr í dag að menn létu vafasamar atkvæðaveiðar ráða afstöðu sinni í málinu. Hún lét um leið að því liggja að þeir sem vildu umhverfismat væru einungis að slá ryki í augu almennings sem skoðanakönnun sannaði í þokkabót að vissi ekkert hvað umhverfismat væri. Þó vildu landsmenn að aðgerðin færi í slíkt mat. Mér þótti hv. þm. reyna að sýna fram á hversu varasamt væri að hlusta á almenning sem hefði skoðanir á málum þótt hann hefði ekkert vit á þeim. Ég gat ómögulega skilið ummæli hv. þm. öðruvísi.

Hæstv. forsrh. tók í sama streng, gerði lítið úr þeirri stefnu Samfylkingarinnar að víkja ætti málinu til skipulagsstjóra og hæstv. umhvrh. til ákvörðunar. Hann kallaði það stefnuleysi að við værum ekki tilbúin til að segja hvort við vildum sökkva Eyjabökkum eða ekki. Það er ekki í fyrsta skipti sem við heyrum þennan tón í máli hæstv. forsrh. Okkur bregður svo sem ekki mikið við það, herra forseti, en mér þykir þessi málflutningur með ólíkindum. Það skyldi þó ekki vera að hv. almenningur vissi að umhverfismat er tilheyrandi málsmeðferð og farvegur fyrir mál á borð við Fljótsdalsvirkjun. Kannski vill almenningur einfaldlega að sömu reglur gildi um Fljótsdalsvirkjun og aðrar ámóta framkvæmdir, teldi það öruggustu leiðina í málinu.

Það skyldi þó ekki vera að almenningur treysti skipulagsyfirvöldum til að taka afstöðu á faglegum grunni og á það mat yrði síðan hlustað af hæstv. ráðherra. Enginn af talsmönnum ríkisstjórnarinnar virðist gera ráð fyrir því í málflutningi sínum. Almenningur telur kannski slíka leið trúverðugri en þá leið sem ríkisstjórnin hefur valið, að láta 63 þingmenn taka ákvörðun á grundvelli skýrslu sem framkvæmdaaðili hefur látið gera.

Því hefur verið haldið fram að slík meðferð mundi ekki breyta neinu og hefur komið fram í máli nokkurra sem talað hafa í dag þar sem ákvörðunin væri endanlega hjá pólitískum ráðherra. Mér þykir með ólíkindum að menn skuli gera ráð fyrir því að hæstv. ráðherra misbeiti valdi sínu í þessu máli, að ef endanleg ákvörðun er hjá pólitískum ráðherra sé öruggt að ekki verði tekið tillit til athugasemda sem fram koma í málsmeðferðinni, þeirra andmæla sem koma fram. Yrði ekki tekið tillit til meðferðar skipulagsstjóra á málinu vegna þess að búið væri að taka ákvörðun um málið. Ég get ekki skilið þær fullyrðingar öðruvísi en svo að ráð sé fyrir gert að hæstv. umhvrh. muni ekki hlusta á það sem fram kemur í málsmeðferðinni. Mér þykir það með ólíkindum ef menn lýsa því yfir að ráðherrar taki ákvarðanir áður en málsmeðferð er lokið.

Við megum ekki gleyma því að í því ferli sem lög um mat á umhverfisáhrifum gera ráð fyrir felst ákveðinn réttur sem ekki er til staðar eins og málinu er háttað í dag. Málinu er kippt úr þeim farvegi sem það ætti að vera í og þá gildir einu hvort sú aðferð stenst lagalega eða ekki, hún er einfaldlega óverjanleg í ljósi breyttra tíma og afstöðu fólks í garð umhverfismála.

Herra forseti. Það skilur á milli okkar samfylkingarmanna og margra þingmanna ríkisstjórnarinnar. Við treystum nokkuð vel þeim sem sérhæft hafa sig á ýmsum sviðum, m.a. við að meta áhrif framkvæmda á lífríkið. Við teljum einfaldlega að stjórnmálamenn eigi ekki að taka ákvarðanir um alla skapaða hluti. Í þessu tilviki eru aðrir hæfari til þess en við sem hér sitjum. Við höfum fæst forsendur, eins og málið liggur fyrir í dag, til að meta faglega hvort skýrsla Landsvirkjunar sé fullnægjandi eða ekki. Ég er ekki sammála þeirri fullyrðingu hv. þm. Valgerðar Sverrisdóttur að þeir sem vilja umhverfismat þori ekki að axla ábyrgð. Við höfum allar forsendur til að taka afstöðu, sagði hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir. Hvaða forsendur eru það? Lestur 600 síðna af flóknu efni á þremur dögum sem meira og minna krefst sérfræðilegrar þekkingar til að hægt sé að leggja mat á. Með fullri virðingu fyrir þekkingu okkar þingmanna á öllu mögulegu efast ég stórlega um að sú ákvörðun geti verið nægilega upplýst.

Herra forseti. Í seinni tíð höfum við sett okkur lög um mat á umhverfisáhrifum vegna ákveðinna framkvæmda sem haft geta varanlega áhrif á umhverfið. Ef við værum að fela okkur á bak við umhverfismat þá væri eins gott að leggja þessi ágætu lög niður. Helst mætti skilja það á málflutningi þeirra sem hér hafa talað af hálfu ríkisstjórnarinnar að þessi lög séu algerlega óþörf og tóm vitleysa að leggja málið fyrir skipulagsstjóra. Við höfum allar forsendur til að meta þetta sjálf á hinu háa Alþingi, að mati hv. virkjunarsinna.

Herra forseti. Við höfum á síðari áratugum sett okkur ýmis lög og reglur um meðferð mála í stjórnsýslu, um að þau fari eftir ákveðnum fyrir fram gefnum leikreglum. Þær breytingar þykja bera vott um heilbrigða stjórnsýslu en ef marka má orð hæstv. ráðherra og stjórnarþingmanna þá eru slíkir farvegir með öllu óþarfir. Að þeirra mati nota þingmenn þá bara sem afsökun fyrir eigin heigulshætti.

[20:15]

Herra forseti. Pólitíska ákvörðunin um hvort sökkva eigi Eyjabökkum er ekki trúverðug fyrr en umhverfismat með þar tilheyrandi málsmeðferð fer fram samkvæmt lögunum frá 1993.

Umhverfisþátturinn í málinu hefur eðlilega tekið mikið pláss í umræðunum hér og m.a. hefur verið á það bent af hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni og fleirum að ýmsir veikleikar séu í líffræðilega þættinum í skýrslu Landsvirkjunar. Það hafa líka komið fram sterk rök fyrir því að arðsemi framkvæmdarinnar sé hæpin. Nokkrir hagfræðingar hafa opnað heimasíðu á netinu þar sem er að finna ýmsar greinar um þessi mál. Er þar m.a. að finna grein Sigurðar Jóhannessonar hagfræðings sem birtist í Frjálsri verslun nú nýverið en í þeirri grein færir hann fram nokkuð sterk rök fyrir því að líkur séu á að tap á framkvæmdinni verði 13 milljarðar. Þessir útreikningar hafa ekki verið hraktir eða þær forsendur sem hann byggir á, að því er ég best veit. Arðsemisumræðan hefur enda ekki verið eins fyrirferðarmikil og umhverfisþátturinn, líklega vegna þess að allir gera ráð fyrir því að framkvæmd sem þessi hljóti að vera arðbær en það er greinilega umdeilanlegt hvort svo sé. Þá getur maður farið að velta fyrir sér um hvað málið snýst. Er þá byggðaþátturinn það eina sem eftir stendur?

Herra forseti. Ég ætla ekki að gera lítið úr þeim vanda sem að okkur Íslendingum steðjar vegna flótta landsmanna frá dreifbýli til þéttbýlis. Fyrir þeirri þróun eru margar ástæður og ekki heiglum hent að finna leiðir til að snúa henni við. Það hefur komið fram, m.a. í könnun Félagsvísindastofnunar um þróun búsetu á Íslandi, að margir telja skort á fjölbreytni í atvinnulífi og menningarlífi eina höfuðástæðu flutninganna. Fólki er ekki nóg að hafa einhverja vinnu. Það vill geta valið á milli starfa, vill geta átt kost á starfi við sitt hæfi.

Bent hefur verið á hve lítill hluti starfa við stóriðju henti konum sem eru nú drjúgur hluti þeirra sem flytja burt en bæði hv. þm. Bergljót Halldórsdóttir og hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir fóru yfir málið út frá því sjónarhorni að þarna væri einvörðungu eða að allmestu leyti um að ræða karlastörf og hentuðu þar af leiðandi ekki konum að því er virtist. Mér þótti hæstv. iðn.- og viðskrh. draga upp ansi bjarta mynd af þeirri veröld sem Austfirðingar munu horfa á ef álver rís við Reyðarfjörð. Ég verð að segja eins og er að það eru miklar efasemdir í mínum huga að þannig líti veröldin út að lokinni byggingu þessa álvers ef af henni verður. Það var engu líkara en hæstv. ráðherra væri að tala um draumalandið, slík áttu áhrif þessarar framkvæmdar að verða og m.a. átti menntunarstig að aukast stórlega á svæðinu en ég áttaði mig reyndar ekki alveg á þeirri röksemdafærslu.

Ég held að það sé svo að þessi byggðaþáttur hafi verið blásinn svolítið upp. Þá ítreka ég að ég skil vel afstöðu þeirra Austfirðinga í málinu en spurningin er einfaldlega sú hvort við lítum á það sem nægileg rök fyrir því raski sem þessi framkvæmd mundi valda, m.a. á umhverfið. Við í Samfylkingunni höfum lýst því yfir að við erum tilbúin til að lúta því ef umhverfismat yrði jákvætt í þá veru þá séum við tilbúin að lúta því að styðja þessa framkvæmd en það er algert lykilatriði í huga okkar að fram fari áður mat á umhverfisáhrifum samkvæmt lögunum með þeirri málsmeðferð sem því fylgir þannig að allir sem eðlilegt sé geti notið andmælaréttar og að Skipulagsstofnun sé látin meta málið á endanum.

Síðan má velta því fyrir sér, herra forseti, hvort hæstv. ríkisstjórn horfi ekki um of til stóriðju í uppbyggingu sinni hvað varðar byggðastefnuna sem þeir reka og hvort ekki sé kominn tími að líta til fleiri átta. Ég vil í þeim efnum vísa til einnar greinar, sem var að finna á vef hagfræðinganna sem ég nefndi hér áðan, eftir Vilborgu H. Júlíusdóttur og er um sambúð ferðaþjónustu og stóriðju í ljósi hagvaxtar og gjaldeyristekna. Þar færir hún m.a. fyrir því rök að það sé kannski kominn tími til að líta til fleiri átta og veltir fyrir sér hvort íslenskt atvinnulíf gæti ekki blómstrað án frekari stóriðjuskrefa í bráð.