Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Þriðjudaginn 16. nóvember 1999, kl. 20:20:32 (1554)

1999-11-16 20:20:32# 125. lþ. 26.3 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 125. lþ.

[20:20]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég tók eftir því að hv. þm. komst að þeirri niðurstöðu að málið væri allt á mjög hæpnum grunni, þ.e. sú afstaða að umræddar virkjunarframkvæmdir væru undanþegnar ákvæðum laga um mat á umhverfisáhrifum vegna þess að þau lög gilda ekki aftur fyrir sig fremur en önnur lög.

Röksemd þingmannsins fyrir þeirri niðurstöðu að þessi forsenda væri á hæpnum grunni var að lögmenn deildu um hvort undanþáguákvæðið væri virkt gagnvart þessu máli, að lögmenn deildu um málið. Ég vil fyrst segja, herra forseti, að lögmenn deila um öll mál. Ég veit ekki um eitt einasta mál sem lögmenn deila ekki um þannig að það eru engin rök að segja að lögmenn deili um mál.

Í öðru lagi vil ég upplýsa hv. þm. um að það liggur fyrir skjalfest í hv. umhvn. erindi eða bréf frá skipulagsstjóra ríkisins sem kveður upp úr með afstöðu embættisins þess efnis að umræddar framkvæmdir falli ekki undir lögin um mat á umhverfisáhrifum. (Gripið fram í: Síðan hvenær varð skipulagsstjóri guð, Kristinn?) Þetta liggur fyrir, afstaða skipulagsstjóra ríkisins. (Gripið fram í.) Hv. þm. segir að þeir sem komast að þessari niðurstöðu séu á hæpnum grundvelli með ályktun sína. Samt vill þingmaðurinn að skipulagsstjóri fái málið til meðferðar þegar hann er sjálfur búinn að vefengja trúverðugleika embættisins í málinu. Ég verð að biðja hv. þm. að rökstyðja betur ályktun sína og vefengingu á því að Fljótsdalsvirkjun heyri ekki undir málið en það er kjarni málsins.