Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Þriðjudaginn 16. nóvember 1999, kl. 20:24:33 (1556)

1999-11-16 20:24:33# 125. lþ. 26.3 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 125. lþ.

[20:24]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Kjarni málsins er sá að stjórnarflokkarnir og skipulagsstjóri ríkisins eru sammála um að lögin um mat á umhverfisáhrifum eru ekki afturvirk. Þess vegna hefur hv. þm. engin rök fyrir þeirri fullyrðingu sinni að vefengja þessa niðurstöðu og það er ekki gott, herra forseti, að þingmaður reyni að veikja mál sem hann er að gagnrýna með því að gefa í skyn að eitthvað sé á veikum grunni en hafa engin rök fyrir því. Hv. þm. er algerlega rökþrota í þessu.

Í öðru lagi greip hv. þm. til sömu röksemdafærslu í málinu með því að gera lítið úr byggðaáhrifum málsins. Hv. þm. sagði: Ég tel að byggðaáhrifin séu stórlega ofmetin. Með hvaða rökum er hv. þm. að setja fram þessa fullyrðingu? Við höfum fyrir okkur gögn sem meta áhrifin á þetta byggðarlag. Við vitum að það eru svo og svo mörg störf sem skapast sem þýðir svo og svo margir íbúar þegar allt er tekið til.

Við höfum líka eldri skýrslur um mat á byggðaáhrifum á þessu svæði, um að íbúum fjölgi um 47% ef álver yrði reist eins og þá stóð til árið 1990--1991 en það var að vísu aðeins stærra en það sem nú er rætt um. Þarna er um að ræða skýrslur stofnunar sem er til þess bær að gefa álit sitt á þessu efni. Hv. þm. kemur hér og segir: Ég tel þetta stórlega ofmetið. Með hvaða rökum, herra forseti? Þingmenn mega ekki vera í máli eins og þessu með svona dylgjur eða slúður. Menn verða að vera með rök ef þeir eru að vefengja opinberar stofnanir.