Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Þriðjudaginn 16. nóvember 1999, kl. 20:31:13 (1559)

1999-11-16 20:31:13# 125. lþ. 26.3 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, BH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 125. lþ.

[20:31]

Bryndís Hlöðversdóttir (andsvar):

Herra forseti. Varðandi arðsemisútreikningana þá eru röksemdirnar í grein þessa ágæta manns nokkuð sannfærandi, það þótti mér a.m.k. Ég hef ekki heyrt nein rök sem hrekja það sem þarna er fullyrt, m.a. um að hækka þyrfti raforkuverðið um 40% eða 50% til að framkvæmdin geti farið borið sig. Í umræðunum hef ég ekki heyrt það hrakið eða aðrar forsendur gefnar sem gæfu betri niðurstöðu hvað þetta varðar.

Hvað er byggðastefna og hvað er ekki byggðastefna? Ég tók það fram í ræðu minni að ég hefði ekki frekar en nokkur annar patentlausnir til að leysa vandann í byggðaþróun í landinu. Það er vandi allra landsmanna. Ég vildi ítreka þá skoðun mína að þróunin er ekki bara vandi þeirrar byggðar sem flúið er frá. Ég var hins vegar að velta upp eins og fleiri hafa gert í umræðunum að líta mætti til fleiri þátta hvað þetta varðar. Ég sagði einnig, herra forseti, að ég teldi ekki rétt að búa til skýjaborgir í kringum þetta, t.d. að fullyrða að menntunarstig muni stórlega aukast á Austurlandi við þessa framkvæmd. Ég dreg ekki úr því að vissulega mun þessi framkvæmd hafa einhver áhrif fyrir byggðaþróunina en svona fullyrðingar um menntunarstigið þykja mér hæpnar.