Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Þriðjudaginn 16. nóvember 1999, kl. 20:33:20 (1560)

1999-11-16 20:33:20# 125. lþ. 26.3 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, JónK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 125. lþ.

[20:33]

Jón Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. kom með plötu sem hefur verið spiluð í þessu máli í gegnum tíðina og er að verða dálítið slitin, að það eigi að líta til fleiri átta. Hún segir að ekkert hafi verið gert úti á landi og ekki verið litið nema í eina átt í þessum málum. Austfirðingar hafa byggt upp margar greinar. Austfirðingar hafa byggt upp sjávarútveginn, tæknivætt hann og byggt fiskvinnslustöðvar á hverjum einasta stað. Þrátt fyrir þá uppbyggingu hefur fólki fækkað.

Það hefur verið unnið í mörgum greinum, m.a. í ferðamálum, mikið og gott starf á Austurlandi. Það er gott mannlíf á Austurlandi og þess vegna er áhugavert fyrir fyrirtæki að setja þar niður starfsemi sína. Þar er umhverfi sem getur tekið við þessari starfsemi. Það er mergur málsins og hefur verið skoðað sérstaklega. Á borðum þingmanna liggja skýrslur um það sem innlegg í þetta mál.

Mér finnst hart þegar talað er um málið eins og ekkert hafi gerst á Austurlandi og með þessu eigi að rétta þeim ölmusu. Þetta er arðbær atvinnustarfsemi þrátt fyrir fullyrðingar um annað. Það kemur a.m.k. í ljós þegar samið hefur verið um orkuverð hvort hún er arðbær eða ekki. Ég ætla ekki að draga strik undir það fyrr en samið hefur verið. Enn hefur ekki verið samið en væntanlega mun gengið frá þeim samningum og ég vona að þeir samningar verði viðunandi.

En umræður um einhverja útreikninga sem byggja ekki á öðru en gefnum forsendum eins og mönnum hentar eru ekki innlegg í þetta mál.