Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Þriðjudaginn 16. nóvember 1999, kl. 20:53:09 (1564)

1999-11-16 20:53:09# 125. lþ. 26.3 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, ÁMöl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 125. lþ.

[20:53]

Ásta Möller (andsvar):

Herra forseti. Það er nú svo með lífið að það þarf alltaf að taka ákveðna áhættu. Ég hef lesið þessi gögn og ég hef lesið mörg gögn um þetta mál núna í haust og í sumar.

Ég hef líka farið austur og hlustað á raddir fólksins. Ég hef ekki bara hlustað á raddir náttúrunnar. Ég hef líka hlustað á raddir fólksins. Það kemur m.a. fram í viðræðum sem ég átti við þetta fólk að það kallar á þessa virkjun. Ég er sannfærð af þeim viðræðum sem ég hef átt við þetta fólk og þeim skýrslum sem ég hef lesið að virkjun og álver á Austurlandi mun setja styrkar stoðir undir samfélagið þar. Það er líka alveg ljóst að samfélagið fyrir austan hefur bolmagn til þess að taka á móti aukinni starfsemi. Fullt af fólki hefur flust þaðan. Það hefur verið lögð niður atvinnustarfsemi. Það hefur verið ákveðin hagræðing. Þetta samfélag hefur því töluvert bolmagn.

Hv. þm. talar um að það vanti iðnmenntað fólk. Ég gat ekki annað lesið í þessari skýrslu en að þarna væri einmitt töluvert af iðnmenntuðu fólki og að töluvert af iðnmenntuðu fólki hefði farið þaðan. Það er svo að fólk sem hefur áhuga á að breikka sinn bakgrunn og sinn vettvang leitar þangað sem nýjungarnar eru. Ég er því ekki í nokkrum vafa um að þegar álver og virkjanir koma í framkvæmd, þá muni einnig iðnmenntað fólk í auknum mæli leita þangað.

Ég ætla að geyma það að svara þessu um konur þangað til á eftir.