Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Þriðjudaginn 16. nóvember 1999, kl. 20:57:30 (1566)

1999-11-16 20:57:30# 125. lþ. 26.3 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, ÁMöl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 125. lþ.

[20:57]

Ásta Möller (andsvar):

Herra forseti. Ég held að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hafi svarað sér sjálfur með tilvísun í Blönduvirkjunina. Það er ljóst að rafmagnið sem kemur frá Blönduvirkjun fer á aðra staði en þann sem virkjað var. Það sem þarf að fylgja virkjun er starfsemi. Þannig getum við tryggt varanleg áhrif af þeim framkvæmdum sem þarna fara fram.

Það er ekki eingöngu niðurstaða Nýsis eða annarra sem hafa skoðað áhrif virkjana og álvers á samfélagið fyrir austan heldur er það almenn niðurstaða, að fyrir hvert eitt starf í álveri, gróft á litið, verður til annað starf samhliða og þau störf munu ekki síður styrkja konur í þessum landsfjórðungi.

Mér finnst líka einkennilegt ef gengið er út frá því að störf í álveri séu eingöngu fyrir karla. Þó að starfsvalið hafi hingað til verið í þá veru þá get ég ekki séð að við þurfum að gefa okkur til framtíðar að þarna verði eingöngu karlastörf til staðar.