Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Þriðjudaginn 16. nóvember 1999, kl. 21:31:18 (1578)

1999-11-16 21:31:18# 125. lþ. 26.3 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, DrH
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 125. lþ.

[21:31]

Drífa Hjartardóttir:

Herra forseti. Hér liggur fyrir till. til þál. um framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun. Leyfi fyrir Fljótsdalsvirkjun var veitt áður en lög um mat á umhverfisáhrifum tóku gildi. Virkjunin er því undanþegin mati á umhverfisáhrifum samkvæmt þeim lögum eins og aðrar framkvæmdir sem leyfðar hafa verið áður en lögin tóku gildi. Það er því verið að fara að þeim leikreglum sem Alþingi hefur ákveðið.

Með tillögunni fylgir vönduð skýrsla sem Landsvirkjun hefur látið gera um umhverfisáhrif Fljótsdalsvirkjunar. Skýrslan er vönduð og er langt frá því að vera hlutdræg heldur eru flestir ef ekki allir þættir málsins dregnir fram, bæði þeir jákvæðu og einnig þeir neikvæðu. Í skýrslunni kemur fram að undirbúningur og rannsóknir hafa staðið yfir í meira en aldarfjórðung og hefur hönnun virkjunarinnar tekið miklum og mikilvægum breytingum, m.a. hefur verið fallið frá löngum aðveituskurði frá miðlunarlóni að stöðvarinntaki og aðrennslisgöng verið valin sem aðveituæð.

Herra forseti. Markmiðið með byggingu Fljótsdalsvirkjunar er að nýta þá auðlegð sem fólgin er í endurnýjanlegum og mengunarlitlum orkugjöfum landsins, vatnsafli og jarðvarma, til eflingar atvinnulífi og bættra lífskjara í landinu í samræmi við stefnu stjórnvalda.

Fljótsdalsvirkjun er einn hagkvæmasti virkjunarkostur landsins borið saman við aðra kosti með svipaða eða meiri orkuvinnslu. Fljótsdalsvirkjun og álver í Reyðarfirði munu stuðla að áframhaldandi efnahagsvexti og þar með áframhaldandi góðæri í landinu.

Herra forseti. Þegar ákveðið var á sínum tíma að ráðast í Búrfellsvirkjun voru margir til að mómæla þeirri ákvörðun en ég held að enginn Íslendingur vildi loka fyrir þá virkjun í dag. Trúlega er Búrfellsvirkjun með arðsömustu virkjunum sem farið hefur verið í.

Þær virkjanir sem hafa verið byggðar á Suðurlandi hafa svo sannarlega styrkt byggðina og verið undirstaða ásamt öðru að þeirri velferð sem við búum við í dag. Sú stefna hefur verið mörkuð að dreifa virkjununum um landið og virkja utan eldvirkra svæða. Slík dreifing virkjana býður upp á meira öryggi fyrir hina ýmsu landshluta og traustari rekstur kerfisins.

Herra forseti. Austurland hefur mátt þola mikla fólksfækkun sl. 10--15 ár með öllum þeim áhrifum sem það hefur í för með sér. Fólksfækkun hefur aðallega átt rætur sínar í því að ungt menntafólk fer burt í leit að atvinnu við sitt hæfi. Í fylgigögnum með þáltill. kemur fram að það er svæðisbundinn veikleiki í atvinnulífi Miðausturlands. Í samdráttargreinum hefur fækkað meira á svæðinu og í vaxtargreinunum hefur fjölgað minna þar en á landinu í heild. Veik atvinnusamsetning leiðir oft til svæðisbundins veikleika því að í samdráttargreinunum halda atvinnurekendur að sér höndum varðandi framkvæmdir, aðföng og kaup á þjónustu.

Í umræðum undanfarinnar viku hafa margir bent á aðra möguleika í atvinnumálum í staðinn fyrir virkjun og álver. Það hafa menn einfaldlega verið að gera í mörg ár en það hefur ekki dugað til að halda í fólkið. Fólksfækkun hefur verið stöðug í sveitum og tekjur hafa bænda minnkað. Búin eru almennt of lítil. Tekjur af landbúnaði hafa minnkað smám saman þar sem dregið hefur stórlega úr stuðningi ríkisins við landbúnað.

Á Fljótsdalshéraði hafa bændur m.a. farið í ferðaþjónustu, skógrækt og lífræna ræktun en þetta hefur ekki bætt upp tekjurýrnun í hefðbundnum búskap. Íbúafjöldi í sveitum á Fljótsdalshéraði er um það bil einn þriðji af því sem hann var í kringum síðustu aldamót. Í sveitum fjærst Egilsstöðum þar sem tækifæri á aukatekjum eru litlar var útsvar 1997 á bilinu 55--77 þús. á hvern íbúa en í tveimur nágrannasveitarfélögum Egilsstaða 90--95 þús. kr. á íbúa. Áhrif virkjunar eru samofin þeim efnahagslegu áhrifum sem verða af byggingu og rekstri álvers með tilheyrandi eflingu byggðar og atvinnulífs á Austurlandi. Þessara áhrifa mun reyndar gæta um allt land.

Á byggingartíma munu mest starfa um 500 starfsmenn og við rekstur virkjunarinnar er gert ráð fyrir 15--20 heilsársstörfum. Þessir starfsmenn munu að öllum líkindum búa í nálægum þéttbýlisstöðum. Bygging virkjunarinnar er meginforsenda þess að unnt sé að sjá fyrirhuguðu álveri í Reyðarfirði fyrir nægri orku eigi það að taka til starfa árið 2003.

Álverið mun hafa mjög mikil áhrif á atvinnulíf og byggð á Austurlandi. Áhrif fyrirhugaðs álvers munu verða þau að hjálpa ungu menntuðu fólki á Miðausturlandi til að fá störf við hæfi og þar með stuðla að meira jafnvægi í aldursskiptingu íbúanna og draga úr brottflutningi. Í kafla um mat á samfélagslegu áhrifum á álveri við Reyðarfjörð kemur fram að fyrirhugað álver mun með beinum, óbeinum eða afleiddum hætti leiða til atvinnusköpunar, hærri atvinnutekna og aukinna viðskipta. Þetta verður ný atvinnugrein á svæðinu sem hefur margfeldisáhrif á aðra starfsemi á Austurlandi. Álverið mun skapa beint um 270 störf í fyrsta áfanga þegar það er komið í fullan rekstur.

Herra forseti. Í athugasemd Náttúruverndarráðs vegna Fljótsdalsvirkjunar, dagsettri 7. febrúar 1991, segir m.a., með leyfi forseta:

,,Það er skilningur Náttúruverndarráðs að jákvæð umsögn ráðsins (bréf dagsett 31. mars 1981) varðandi eldri hugmyndir um virkjun standi enn, þar með talið samþykki við því að leggja Eyjabakka undir vatn.``

Eins og kunnugt er var samið um að Þjórsárver yrðu friðuð.

Hagsmunaaðilar í ferðaþjónustu skiptast nokkuð í andstæðar fylkingar hvað varðar afstöðu til Fljótsdalsvirkjunar. Margir hafa haldið því fram að virkjunaráform spilli möguleikum til frekari þróunar ferðamennsku á svæðinu meðan aðrir telja að meðan ekki komi til bættar samgöngur, betri gistiaðstaða og aukin fjölbreytni í afþreyingu verði þetta svæði undir í samkeppni um ferðamenn. Í því sambandi sé enginn annar í augsýn en virkjunaraðili, enda skipti það ekki sköpum þó virkjanamannvirki komi til. Þessu til sönnunar má benda á önnur virkjunarsvæði, til að mynda á Suðurlandi þar sem í kjölfar virkjana hefur aðgengi ferðamanna að hálendinu aukist að mun.

Herra forseti. Það er því mikilvægt að Austfirðingar fái notið þeirra framkvæmda sem gerir öfluga byggðastefnu trúverðuga.