Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Þriðjudaginn 16. nóvember 1999, kl. 21:39:17 (1579)

1999-11-16 21:39:17# 125. lþ. 26.3 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 125. lþ.

[21:39]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Enn bætist í röksemdaflóruna. Ég verð að segja að nokkuð finnst mér dapurlegt að heyra hinar sorglega lágu meðaltekjur í sveitahreppum á Fljótsdalshéraði notaðar sem rök fyrir álveri á Reyðarfirði og þá væntanlega því að réttlætanlegt sé að færa þær umhverfisfórnir sem því eru samfara vegna þess að meðaltekjurnar í sveitahreppunum eru nákvæmlega jafnlágar í Dölum, á Barðaströnd, í Vestur-Húnavatnssýslu, í Vestur-Skaftafellssýslu og almennt í sveitahéruðum á landsbyggðinni. Er þá staðan sú að þrátt fyrir allt sé álver eina lausnin, því að um leið og maður dregur það í efa er maður farinn að ráðast á allt annað sem gert er eins og hér var sagt áðan? Er það virkilega svo að það sé t.d. mjög gild röksemd fyrir réttmæti álvers á Reyðarfirði að meðaltekjur í sveitahreppum, í sauðfjárrækt og öðrum landbúnaði séu lágar?

Í öðru lagi bið ég menn að sýna sanngirni þegar vitnað er í þá stöðu sem Náttúruverndarráð var í á sínum tíma og síðan með ítrekun í þá afstöðu aftur 1991. Vita menn ekki á hvaða stigi meðvitund um umhverfismál var og hversu veik staða umhverfisverndar var á Íslandi á þeim árum þegar menn töldu sig hafa unnið stórsigur með því að bjarga Þjórsárverum og menn voru næstum tilbúnir til að kaupa það hvaða verði sem var? Er þá sanngjarnt að draga það upp á borðið sem innlegg í viðhorf manna rétt fyrir árþúsundahvörfin eftir allt það vatn sem síðan hefur til sjávar runnið? Er það sanngjarnt að meðhöndla hlutina þannig? Eða fást menn ekki til að viðurkenna að nú ríkja gjörbreytt viðhorf og gjörbreyttar aðstæður og staða umhverfisverndar stendur svo miklu sterkari að vígi í dag að það sem menn töldu sig þá vera að bjarga teldust núna sjálfsagðir hlutir, eins og t.d. vonandi það að sökkva ekki Þjórsárverum?