Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Þriðjudaginn 16. nóvember 1999, kl. 21:42:02 (1581)

1999-11-16 21:42:02# 125. lþ. 26.3 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 125. lþ.

[21:42]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg hárrétt. Aukin fjölbreytni og kraftur í atvinnulíf landsbyggðarinnar er einmitt mjög mikilvæg. Hvernig verður nýsköpun og hvernig verður fjölbreytni almennt til í atvinnulífinu í kringum okkur? Í gegnum forsendur sem gera fjölda smáfyrirtækja og margs konar atvinnustarfsemi kleift að dafna. En það eru hinar stóru lausnir, patentlausnir sem hafa reynst illa. Meira að segja í Bandaríkjunum er það viðurkennt að nýsköpunin og mikill meiri hluti nýrra starfa skapast í smáfyrirtækjum. Þar eru menn að miklu leyti horfnir frá því að reyna að leysa atvinnuvanda einstakra svæða eða byggðarlaga með þessum stóru patentlausnum að reisa þar eitt risastórt fyrirtæki vegna þess að reynslan af því er mjög blendin, sérstaklega ef það verður bara önnur tegund af einhæfu atvinnulífi sem í kjölfarið siglir. Sú hætta er til staðar. Væntingarnar um alls konar úrvinnslu og iðnað í kringum t.d. stóriðjuver hafa mjög sjaldan gengið eftir. Það voru ein af rökunum sem notuð voru fyrir Straumsvík á sínum tíma, að það yrði svo mikil úrvinnsla og alls konar smáfyrirtæki í áliðnaði mundu spretta upp alveg tugum saman. Hvar eru þau nú? Að vísu er eitt pönnufyrirtæki á Eyrarbakka og það er gott og blessað, en mér skilst að álið í það sé flutt inn þannig að þetta er ekki alltaf alveg eins og það sýnist.

Ég held að ef menn fengjust til að ræða þetta á þeim nótum sem ég hélt að væru almennt að verða viðurkenndar hvað varðaði þróun og nýsköpun í atvinnulífinu, að það eru undirstöðurnar þar sem skipta máli en ekki þessar stóru patentlausnir sem eru í raun ákveðin nauðhyggja, þá sæju þeir að eitt stykki álver á einum stað á landinu, jafnvel þó það hafi einhver staðbundin áhrif, gerir ósköp lítið hvað varðar hinn almenna undirliggjandi vanda í þessum efnum ef ekkert á að gera gagnvart honum á sama tíma.