Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Þriðjudaginn 16. nóvember 1999, kl. 21:48:06 (1587)

1999-11-16 21:48:06# 125. lþ. 26.3 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, HjálmJ
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 125. lþ.

[21:48]

Hjálmar Jónsson:

Herra forseti. Sú framkvæmd sem hér um ræðir er löngu ákveðin og ákvörðun hefur lögformlega verið tekin. Með þessari till. til þál. er verið að kanna vilja þingsins um framhald þessa máls eins og oft hefur komið fram í umræðunni í dag. Þjóðin getur því fengið að fylgjast með málatilbúnaði og röksemdum.

Mér hefur reyndar komið á óvart að ekki hafa heyrst þakkarorð frá stjórnarandstöðunni fyrir þetta tækifæri því að það var ekki nauðsynlegt að koma með þetta mál fyrir þingið. En hingað er það nú komið og hlýtur þinglega meðferð.

Fljótsdalsvirkjun hefur verið þaulkönnuð, umhverfis\-áhrifin, áhrifin á mannlífið, dýralífið og gróðurríkið. Skýrslurnar sem lagðar hafa verið fram og liggja til grundvallar eru ítarlegar og vandaðar.

Nú er það svo að alþingismenn hafa atvinnu af því að taka ákvarðanir. Við höfum tekið það að okkur að setja okkur inn í málin og taka ákvarðanir. Það munum við gera í þessu máli aftur fyrst það er lagt fyrir þingið. Skipulagsstjóri ríkisins og hæstv. umhvrh., svo góð sem þau eru, axla ekki ábyrgðina fyrir Alþingi. Það er hlutverk okkar að stjórna og taka ákvarðanir. Ef alþingismenn geta ekki sett sig inn í þetta mál og greint kjarna þess, ef alþingismenn geta ekki tekið ákvörðun út frá eigin sannfæringu, þá eru þeir einfaldlega að bregðast. Við getum ekki falið öðrum að taka ákvarðanirnar fyrir okkur.

Skringileg er sú afstaða að lýsa sig reiðubúinn að sökkva Eyjabökkunum ef einhver einn embættismaður samþykkir það, eins og kemur fram í tillöguflutningi Samfylkingarinnar. Skipulagsstjóri verður vafalaust beðinn um álit af þingnefndinni sem fjallar um málið eftir að fyrri umr. er lokið.

Auðvitað er stundum erfitt að taka ákvarðanir. Þrátt fyrir allar staðreyndir og röksemdir, þá er hluti þessa máls huglægur og tilfinningalegur. Inn í það blandast að sjálfsögðu gildismat okkar, viðhorf til mannlífs og búsetu. Ég sé eftir grónu landi sem fer undir vatn. Ég sé eftir öllum þeim gróðri sem hingað til hefur farið undir vatn vegna virkjana. En lífsgæðin kosta sitt. Fögur svæði landsins hafa líka verið tekin undir byggð. Mannfólkið hefur leitast við að finna góð bæjarstæði og umbreyta þeim, bylta í tún o.s.frv. og að sjálfsögðu byggja á fegurstu stöðunum sem fólk hefur fundið, hvort sem það eru sveitabæir, þorp, bæir eða borgin Reykjavík. Hvað þarf að taka mikið af ónumdu landi undir byggð í grennd við Reykjavík ef flestir landsmenn flytja hingað?

Herra forseti. Fallegt land þarf líka fólk. Fegurð landsins birtist með ýmsu móti og fegurðin sést ekki síst í blómstrandi mannlífi og við berum nokkra ábyrgð á því á háu Alþingi hvort mannlífið blómstrar eður ei. Okkar ábyrgð væri þung, að láta reka á reiðanum og láta landið fara í eyði meir og meir. Landsbyggðin stendur illa af ýmsum ástæðum og stórfelldir þjóðflutningar kalla á lausnir og aðgerðir. Það væri ábyrgðarleysi að hafast ekki að. Þess vegna tekur ríkisstjórnarmeirihlutinn á Alþingi þá ákvörðun að leggja þetta mál fram aftur og byggja upp virkjun og síðan iðjuver utan suðvestursvæðisins, að þessu sinni á Austurlandi, sem sagt ekki á sama áhættusvæði jarðsögulega og landfræðilega og hingað til.

Landsbyggðin á þar að auki einfaldlega rétt á því að við komum með úrræði þegar við stöndum frammi fyrir gífurlega vaxandi byggðavanda. Þetta er eitt skref af mörgum. Þetta leysir ekki vanda nema sums staðar þótt vissulega njóti öll þjóðin góðs af. Fleiri skref þarf en að sjálfsögðu ekki eins og þetta sem tekin er ákvörðun um núna, það þarf fleira að koma til og horfa til annarra landshluta, og um það verður Alþingi líka að hafa leiðir og lausnir.

Herra forseti. Heiðagæsir dvelja á Eyjabökkum um sumartímann en gæsirnar munu finna sér annan stað og óþægindi þeirra verða lítil og tímabundin. En mér finnst hins vegar að réttur mannfólksins sé fyrir borð borinn í málatilbúnaði svonefndra umhverfisverndarsinna og stjórnarandstæðinga hér á þinginu. Í máli þeirra virðast Austfirðingar til fárra fjaðra metnir.