Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Þriðjudaginn 16. nóvember 1999, kl. 22:00:15 (1593)

1999-11-16 22:00:15# 125. lþ. 26.3 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, HjálmJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 125. lþ.

[22:00]

Hjálmar Jónsson (andsvar):

Herra forseti. Ekki vil ég fara í samkeppni við hv. þm. um hvor sýni meira yfirlæti í stólnum. Hitt vil ég fullyrða að málatilbúnaður stjórnarandstöðunnar undanfarnar vikur og missiri hefur ekki skilað sér til þjóðarinnar. Fólk áttar sig ekki á hvað þeir meina með lögformlegu umhverfismati þegar búið er að ganga frá öllu slíku vel og rækilega áður.

Lög á Íslandi eru ekki afturvirk. Það vita a.m.k. 80% þjóðarinnar og um það snýst þetta mál öðrum þræði. Sé fólk hins vegar spurt hvort það vilji umhverfismat þá játa því að sjálfsögðu flestir. Fólk vill ekki að vaðið sé áfram hugsunarlaust en þannig er það aldeilis ekki vegna þess að málið hefur verið í undirbúningi í áratugi.