Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Þriðjudaginn 16. nóvember 1999, kl. 22:02:44 (1596)

1999-11-16 22:02:44# 125. lþ. 26.3 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 125. lþ.

[22:02]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Mér þótti hv. þm. Hjálmar Jónsson komast skaplega frá máli sínu þar til í lokin. Þá féll hv. þm. í sömu gryfju og sumir aðrir að stilla málinu þannig upp að umhverfisverndarsinnar væru að velja á milli heiðagæsa og Austfirðinga og hefðu ákveðið að fórna hinum síðarnefndu. Þetta, herra forseti, er ömurlegur málflutningur og það frá hv. þm., sjálfum guðsmanninum.

Ég hef ekki viljað taka þátt í að ræða málið á þeim nótum að tilfinningar manna eða viðhorf til íbúa Austurlands blönduðust þar inn í, í þeim skilningi að menn færu í manngreinarálit. Mér finnst svo ofboðslegur málflutningur að draga upp þá mynd.

Ég tala út frá sannfæringu minni fyrir því sem ég tel vera velferð og hagsmuni allra Íslendinga til framtíðar litið, að sýna skynsemi og aðgát í umhverfismálum og varðveita þá miklu auðlind sem við eigum í náttúru landsins sem allra mest óspjallaða. Ég trúi því að þannig sé framtíðin vænlegri fyrir Íslendinga en skammtímahagsmunir sem kunna að vera fólgnir í, sem þó er umdeilanlegt, framkvæmdum af þessu tagi.

Mér þykir vænt um byggð á Austurlandi eins og alla aðra byggð á Íslandi. Mér þykir vænt um Austfirðinga og þeir eru gott fólk. Ég tel að í verkum mínum hafi ég, eftir því sem á það hefur reynt, ekki verið Austfirðingum verri en hver annar. Ég átti á sínum tíma þátt í að flytja opinbera stofnun til Austurlands. Ég kom að því að undirbúa framkvæmdir við flugvöll á Austurlandi og margt fleira gæti ég nefnt ef maður tæki þátt í að fara ofan í svo fáfengilegan málflutning á annað borð, að þetta snúist um viðhorf manns eða tilfinningar til íbúa Austurlands. Getum við nú við ekki, eins og maðurinn sagði, reynt að lyfta þessari umræðu á örlítið hærra plan?