Framhald umræðu um Fljótsdalsvirkjun

Miðvikudaginn 17. nóvember 1999, kl. 13:46:31 (1611)

1999-11-17 13:46:31# 125. lþ. 27.91 fundur 154#B framhald umræðu um Fljótsdalsvirkjun# (aths. um störf þingsins), RG
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 125. lþ.

[13:46]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Herra forseti. Þetta eru auðvitað fráleit viðbrögð sem koma af hálfu stjórnarmeirihlutans. Hv. þm. Sverrir Hermannsson kemur upp og honum finnst grundvallarlega rangt að við séum að ræða þessa þáltill. þar sem hann hafi ekki fengið það umhverfismat sem lög gera ráð fyrir og hann óskar eftir fundi til að ræða málið. Nákvæmlega þetta hefur verið kjarninn í ræðunum í gær og þetta mál er ekkert til vandræða fyrir stjórnarandstöðuna. Þetta mál er til vandræða fyrir stjórnarmeirihlutann. Það er stjórnarmeirihlutinn sem kemur hér og forsrh. sjálfur og hann segir úr þessum ræðustól: Fólkið vill eitthvert umhverfismat, fólkið er ekkert að biðja um neitt lögformlegt. Hér er skýrslan og fólkið fær umhverfismatið sitt.

Það er í raun og veru ekki fyrr en eftir þessar fyrstu ræður í gær sem það verður endanlega ljóst að stjórnarmeirihlutinn var að bera skýrslu hingað inn á Alþingi til að fela alþingismönnum umhverfismat og um þetta ræddum við til klukkan tíu í gærkvöldi. Það er svo einfalt. Það var að renna upp fyrir mönnum í gær, og eftir að það er sagt blákalt úr þessum ræðustól, að það séum við í iðnn. og umhvn. sem eigum að framkvæma umhverfismatið. Ýmsu hef ég nú tekið þátt í en þetta verður alveg nýtt fyrir mér.

Það er ekkert undarlegt við það að hv. þm. Sverrir Hermannsson skuli koma hér og óska eftir fundi með forseta þingsins vegna þess að við höfum staðið að þessu máli alveg eins og óskað var. Það var 540 blaðsíður, það kom fram á föstudaginn, við vissum ekki að það yrði svona umfangsmikið, við báðum um eins dags frest og stóðum við að mæta á þriðjudegi með þetta viðamikla mál.