Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Miðvikudaginn 17. nóvember 1999, kl. 14:31:04 (1624)

1999-11-17 14:31:04# 125. lþ. 27.1 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 125. lþ.

[14:31]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Mér gefst tækifæri til þess hér á eftir, síðar við umræðuna, að svara með rökstuddum hætti fullyrðingum hv. þm. sem margar eru rangar og rangt fram settar. Ég hef tekið þær niður og mun svara þeim og gefst þá hv. þm. tækifæri til að bera hönd fyrir höfuð sér ef honum finnst illa á sig ráðist í þeim efnum.

En gæti verið að hv. þm. Ögmundur Jónasson, formaður Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, sé í andstöðu við þessa samþykkt Verkamannasambandsins sem samþykkt var með 80% greiddra atkvæða, vegna þess að félagar hans hafa aðrar tryggingar fyrir framtíð sinni en það fólk sem þarna kom saman til þings? Það fólk hefur verulegar áhyggjur af framtíð sinni og framtíð atvinnu sinnar á Íslandi vegna þess að það hugsar lengra en bara til morgundagsins.