Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Miðvikudaginn 17. nóvember 1999, kl. 14:38:01 (1630)

1999-11-17 14:38:01# 125. lþ. 27.1 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, EMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 125. lþ.

[14:38]

Einar Már Sigurðarson (andsvar):

Herra forseti. Það verður ekki af hv. þm. Ögmundi Jónassyni skafið að hann er samkvæmur sjálfum sér. Það er alveg sama að því er virðist um hvaða mál hann talar eða hvaða hliðar þessa máls hann talar um, hann er ætíð á móti. Ætíð skal svartsýnin ráða för. ,,Byggðasjónarmiðin eru vanhugsuð í þessu máli,`` sagði hv. þm. Það er í raun í fyrsta sinn sem ég heyri slíka áherslu lagða á að jafnvel sé verið að vinna gegn hagsmunum byggðanna.

En það skal heldur ekki af þingflokki vinstri grænna skafið að ætíð hafa þeir vitið mest á öllum sviðum. Ályktanir ýmissa aðila um byggðaþáttinn í þessu máli eru greinilega vanhugsaðar. Þar er ekki verið að fara með staðreyndir. Og bólur Austfirðinga eru ekki bara grænar, hv. þm. Jón Kristjánsson, þær eru líka rauðar. Þær eru af öllum litum vegna þess að orð um að það þurfi að hafa vit fyrir Austfirðingum á þessum sviðum eins og öllum öðrum eru orðin nógu mörg. Nú er mál að linni. Nú er mál að við fáum að sjá framkvæmdir sem hafa einhverja möguleika á því að snúa þeirri byggðaþróun við sem við höfum allt of lengi þurft að búa við. Við segjum líka, hv. þm. Ögmundur Jónasson: Hvar eru þessi stóriðjuver sem vantar fólk í vinnu? Hv. þm. sagði að honum þætti ólíklegt að nokkur mundi flytja austur til að vinna í álveri. Þessi fyrirlitning á störfum á ákveðnum vinnustöðum er einnig afar óhugnanleg. Ég vona að það sé misskilningur hjá mér að hv. þm. beri ekki sömu virðingu fyrir störfum í álveri og öðrum störfum.