Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Miðvikudaginn 17. nóvember 1999, kl. 15:05:31 (1638)

1999-11-17 15:05:31# 125. lþ. 27.1 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 125. lþ.

[15:05]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Það er ágætt til þess að vita að hv. þm. Ísólfur Gylfi skuli hafa góðan aðgang að almenningi og almenningur að honum. Ég óttast hins vegar að það verði erfitt fyrir okkur að veita almenningi sama lýðræðislega aðgang að okkur og almenningur kemur til með að fá með formlegum og lýðræðislegum aðgangi að skipulagsstjóra og fræðimönnum hans þegar um lögformlegt mat er að ræða.

En það er annað sem mig langaði til að gera athugasemd við varðandi ræðu hv. þm. Ísólfs Gylfa Pálmasonar. Það lýtur að skýrslu Landsvirkjunar sem ég vil kalla frummatsskýrslu. Ég vil mótmæla þeim orðum þingmannsins að hún sé góð. Ég vék að því í ræðu minni í gær að hún væri ágæt til síns brúks, til að leggja hana fyrir Skipulagsstofnun til umfjöllunar en ég vil benda fólki á að í skýrslunni rekst hvað á annars horn. Nokkur einföld dæmi:

Sums staðar er talað um að álver á Reyðarfirði eigi að hafa 480 þús. tonna afkastagetu. Annars staðar í skýrslunni er talað um að það eigi að hafa 360 þúsund tonna afkastagetu. Sums staðar er talað um að Landsvirkjun hafi lagt í kostnað við undirbúning virkjunarinnar 3,08 milljarða á verðgildi júlí 1999 en annars staðar er talað um að Landsvirkjun hafi lagt í kostnað upp á 3,2 milljarða. Miðlunarlónið á Eyjabökkum er ýmist 43 km2 eða 44 km2. Stundum er áin kölluð Jökulsá á Fljótsdal og stundum Jökulsá í Fljótsdal. Þetta er ekki góð skýrsla, hv. þm.