Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Miðvikudaginn 17. nóvember 1999, kl. 15:07:20 (1639)

1999-11-17 15:07:20# 125. lþ. 27.1 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, ÍGP (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 125. lþ.

[15:07]

Ísólfur Gylfi Pálmason (andsvar):

Herra forseti. Lögin eru auðvitað alveg skýr. Það er búið að taka ákvörðun um þessa framkvæmd og um það verður ekki deilt. Eitt af því sem við þingmenn þurfum að gera er að taka af skarið. Eins og ég sagði í ræðu minni eru í málinu mörg tilfinningamál og sjálfsagt að velta þeim öllum upp. Ég hef velt þeim fyrir mér og er sannfærður um að þetta sé rétt skref.

Hv. þm. gerði að umtalsefni hina ágætu skýrslu sem Landsvirkjun hafði látið fjölmarga vísindamenn vinna. Ég geri í sjálfu sér ekki mikið með það hvort sagt hafi verið Jökulsá á Dal eða í Dal þó svo dagur íslenskrar tungu hafi verið í gær. Það er ekki mikið mál að leiðrétta slík smáatriði.

Hv. þm. talaði líka um misvísanir í skýrslunni. Ég tók eftir því að í ræðu hv. þm. í gær talaði hún alltaf um 480 þús. tonna álver. Við erum ekki alltaf að tala um 480 þús. tonna álver. Við erum fyrst og fremst að tala um fyrsta áfanga sem er 120 þús. tonna álver. Það eru því misvísanir á mörgum sviðum hvað þetta varðar en ég er sammála hv. þm. um að sú skýrsla sem Landsvirkjun lét gera sé ágæt til síns brúks.