Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Miðvikudaginn 17. nóvember 1999, kl. 15:27:54 (1645)

1999-11-17 15:27:54# 125. lþ. 27.1 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 125. lþ.

[15:27]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Aðeins út af þeim tapaða tíma sem hv. þm. minntist á varðandi mat á umhverfisáhrifum og af því að hv. þm. sagðist hafa verið sammála fyrrv. hæstv. umhvrh. þegar hann lýsti því yfir að rétt væri að setja framkvæmdirnar í mat á umhverfisáhrifum þá var Landsvirkjun að fara af stað á nákvæmlega sama tíma með það ferli sem þurfti að fara af stað til undirbúnings matinu. Það hefur þurft þennan tíma sem nú hefur liðið alveg frá því að þessi yfirlýsing kom þar til nú að skýrslan er tilbúin. Það hefur því ekkert tafist, síður en svo, tíminn hefur verið nýttur vel.

En af því að hv. þm. er einlægur byggðastefnumaður að ég heyri og hefur talað hér hvað eftir annað um húshitunarkostnaðinn og niðurgreiðslu á námskostnaðinum, þá hafa komið yfirlýsingar, bæði frá mér og hæstv. forsrh., um að staðið verði við þau fyrirheit sem snúa að lækkun á orkukostnaði heimilanna á köldum svæðum. Það verður gert og þarf ekki að ítreka það hér.

Af því að hv. þm. spurði hvort Orkuveita Reykjavíkur hefði fengið þau réttindi yfir þá var það svo að Orkuveita Reykjavíkur varð til um síðustu áramót. (Forseti hringir.) Bygging Nesjavallavirkjunar var byggð fyrir þann tíma og var byggð af Hitaveitu Reykjavíkur og réttindin fylgdu þar af leiðandi yfir þegar fyrirtækin voru sameinuð.