Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Miðvikudaginn 17. nóvember 1999, kl. 15:33:18 (1651)

1999-11-17 15:33:18# 125. lþ. 27.1 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 125. lþ.

[15:33]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég fellst alveg á að þessi ræða var skýr. Nú sagði þingmaðurinn í fyrsta sinn: Ég styð byggingu álvers á Reyðarfirði. Þá vek ég athygli á því að álver á Reyðarfirði verður ekki byggt nema einhver taki að sér að selja álverinu rafmagn. Öðruvísi verður það ekki byggt, öðruvísi verður álverið ekki byggt. Ef álverið verður ekki byggt þá verður virkjun í Fljótsdal ekki byggð. Málið veltur jafnframt á því hvort aðili sem kaupir afurðir álversins er fyrir hendi og við hann nást samningar.

Ég minni á það sem formaður Alþýðuflokksins fyrrverandi sagði í blaðaviðtali fyrir nokkrum árum. Hann var þá enn þingmaður fyrir Alþýðuflokkinn í Reykjaneskjördæmi. Hann sagði, með leyfi forseta, um annað álver sem átti að rísa á Keilisnesi, í tilefni af því deilur voru um það eins og þetta:

,,Tækifærin gefast ekki alltaf og alls staðar til að koma á fót iðjuverum af þessu tagi. Tækifærin til að nýta orku fallvatnanna gefast bara stundum og sums staðar og þá verða menn að vera reiðubúnir til að grípa tækifærin.``

Þá verða menn að vera reiðubúnir til að grípa tækifærin, sagði fyrrv. formaður Alþýðuflokksins, Kjartan Jóhannsson, og þetta á auðvitað við í dag. Annaðhvort eru menn tilbúnir að grípa tækifærið þegar það gefst, semja og byggja, eða menn fara undan í flæmingi og eru á móti málinu en hafa ekki kjark til að segja það.