Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Miðvikudaginn 17. nóvember 1999, kl. 15:55:08 (1657)

1999-11-17 15:55:08# 125. lþ. 27.1 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 125. lþ.

[15:55]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Orðalagið sem hæstv. iðnrh. las beint upp úr tillögu okkar gefur til kynna hvert mat okkar var á bráðabirgðaákvæðinu þegar textinn var settur saman. Við tölum um að samkvæmt því ,,virðist ekki ...`` ég undirstrika orðið virðist. Það virðist ekki lagaskylda fyrir því að virkjunin fari í lögformlegt mat.

Hins vegar hafa auðvitað fjöldamörg atriði komið upp í málinu, herra forseti, síðan við skrifuðum þennan texta. Það breytir ekki því að við töldum okkur fullkomlega vera að fara með rétt mál. Við drögum í efa í tillögunni sem hæstv. iðnrh. vitnar í, að þetta bráðabirgðaákvæði standist lög, þ.e. að virkjunin geti farið í gegn á því. Og við segjum í tillögunni: ,,... þrátt fyrir að virkjunarleyfi hafi verið veitt.`` Það er ekki stafkrókur um að við teljum þetta virkjunarleyfi vera gilt.