Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Miðvikudaginn 17. nóvember 1999, kl. 16:03:03 (1663)

1999-11-17 16:03:03# 125. lþ. 27.1 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 125. lþ.

[16:03]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég sé ástæðu hv. þm. Einars Más Sigurðarsonar til að verja skoðanakönnunina sem framkvæmd var af Félagsvísindastofnun fyrir staðarvalsnefnd fyrir álver á Reyðarfirði. Hann er ástríðufullur stuðningsmaður álvers á Reyðarfirði út frá forsendum sem hann hefur tíundað hér í ræðustól. Ég sé enga ástæðu til að gera lítið úr þeim tilfinningum hans og skoðunum. Ég frábið mér þá hrokafullu afstöðu sem þingmaðurinn gerir mér upp í ræðu sinni rétt áðan um að ég telji mig vita allt best og þingflokk minn, að við teljum okkur fróðari öðrum um lög og annað. Það hefur aldrei mátt lesa úr máli mínu í þessum ræðustól, virðulegi forseti. Ég vil ekki að svona sé talað til mín, að ég hafi þessa hrokafullu afstöðu. Það er ekki hægt að styðja neinum haldbærum rökum.