Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Miðvikudaginn 17. nóvember 1999, kl. 18:25:35 (1669)

1999-11-17 18:25:35# 125. lþ. 27.1 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 125. lþ.

[18:25]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg hárrétt hjá hv. þm. að orkuverð sem væri í kringum 12 mill er allt of lágt orkuverð fyrir álver á Reyðarfirði. Þarna má hv. þm. ekki vera með þann blekkingaleik sem hann er með. Auðvitað hlýtur raforka frá fullafskrifuðum orkuverum, eins og eru á Tungnaár- og Þjórsársvæðinu, að vera miklu ódýrari. Auðvitað var orkan miklu ódýrari þegar samningar voru gerðir fyrir 25 árum. Við erum að tala um það að gera nýjan orkusamning og það liggur fyrir að ekki verður samið við aðilann nema sá arður fáist af þeim samningi sem eigendur fyrirtækisins hafa gert kröfu til að þetta fyrirtæki, Landsvirkjun, eigi að skila eigendum sínum.

Það er líka rétt að það verður mikið áfall ef þetta verkefni gengur ekki eftir fyrir þá sem hafa bundið mestu vonir við það eins og íbúar á Austurlandi. En það verður mikil gleði í röðum græningja ef það gengur ekki eftir. Þarna fara hagsmunirnir ekki saman, því miður.

Hins vegar höfum við alltaf haft mjög skýra fyrirvara um það að þessir samningar hafa ekki náðst fyrr en þeir hafa verið undirritaðir formlega. Það var ekki fallegur leikur sem ríkisstjórnin sem hv. þm. átti aðild að frá 1988 til ársins 1991 þegar hún fór hring eftir hring í kringum landið til að kynna þau stórkostlegu tækifæri sem væru til staðar í uppbyggingu orkufreks iðnaðar. Ekkert af þeim áformum gekk eftir. Það var til að vekja vonir og væntingar fólks víða um land sem brugðust allar.

En við höfum haft þann skýra fyrirvara að það sé alls ekki víst að þetta mál gangi eftir. Við viljum hins vegar leggja mikið á okkur til þess að það geti gengið, í harðri pólitískri andstöðu við hv. þm. Steingrím J. Sigfússon sem ber þá von heitasta í brjósti að ekkert verði úr þessu eins og af málflutningi hans má dæma í þessari umræðu.