Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Miðvikudaginn 17. nóvember 1999, kl. 18:27:38 (1670)

1999-11-17 18:27:38# 125. lþ. 27.1 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 125. lþ.

[18:27]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég er andvígur virkjuninni. En ég hef samtímis áhyggjur af stöðu Austfjarða og ég kvíði því hvernig andrúmsloftið verður þar ef ekkert verður af þessum framkvæmdum vegna þeirra væntinga sem kyntar hafa verið upp af heilmörgum í kringum þær.

Það er nú ánægjulegt að heyra --- er það ánægjulegt? Ég veit ekki hvaða orð maður á að hafa um það --- hæstv. iðnrh., varaformann Framsfl. ráðast með þessum hætti að ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar, formanns Framsfl. á þessari tíð. Þar var einnig um borð Halldór Ásgrímsson, núv. hæstv. utanrrh., og stóð einna þéttast við hliðina á Jóni Sigurðssyni iðnrh. í stóriðjumálunum. Ætli það hafi ekki verið sá sem hér talar sem reyndi einna helst að andæfa. Ef menn vilja fara út í þessa sagnfræði verður nú farið að höggva býsna nærri Framsfl. Ætli hæstv. iðnrh. hafi ekki verið ungur maður á uppleið í Framsfl., verið að vinna að því að ryðja Guðmundi G. Þórarinssyni úr sæti einmitt á þessum tíma? Hæstv. iðnrh. er málið skylt.

Varðandi orkuverðið aftur og samhengi hlutanna er það auðvitað ljóst að þegar farið verður að leita fjármögnunar á verkefni eða auglýsa eftir meðeigendum mun raforkusölusamningur væntanlega liggja fyrir. Nú vita menn það. Segjum að dæmið verði mjög tæpt, hvar endar þá þrýstingurinn á því að láta það ganga upp? Menn sem hafa talað af þvílíkum heilagleika um hversu mikilvægt og stórt og ágætt þetta verkefni er, eru þeir sem ráða ferðinni, geta haft áhrif á niðurstöðuna í gegnum eigendahlut sinn í Landsvirkjun og stöðu sína sem iðnrh. o.s.frv. Er þá ekki ástæða til að hafa áhyggjur af því að menn þrýsti raforkuverðinu niður til að dæmið gangi upp, a.m.k. á pappírnum? Svarið er jú. Þessi samþætting hagsmunanna og áhættunnar í þessu stóra máli er því mjög alvarlegur hlutur. Sporin hræða líka í þessum efnum, herra forseti.