Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Miðvikudaginn 17. nóvember 1999, kl. 18:31:37 (1672)

1999-11-17 18:31:37# 125. lþ. 27.1 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 125. lþ.

[18:31]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Það er nú svona og svona og hefur komið nokkuð rækilega fram í þessari umræðu hvernig það er að eiga rökræður og skoðanaskipti á eðlilegum grundvelli um þessi mál. Ég held að það sé þó nokkuð síðan að jafnríkulegrar tilhneigingar hafi gætt til þess að snúa út úr fyrir mönnum, leggja þeim orð í munn, gera þeim upp skoðanir og láta hlutina snúast um annað en það sem máli skiptir. (Gripið fram í.) Hér kom ágætt dæmi frá Jóni Kristjánssyni. Hann lagði mér orð í munn, þessi tiltölulega grandvari maður, sem er prýðilega máli farinn og ritfær. Hann á ekki að þurfa að grípa til þess í rökræðum af þessu tagi að leggja mönnum orð í munn. Það voru orð hv. þm. Jóns Kristjánssonar en ekki mín, að Austfirðingar hefðu setið með hendur í skauti. Heyrði einhver annar hér í salnum mig segja það? Nei, það sagði ég ekki. Ég sagði þvert á móti, þó mér sé vel kunnugt um að menn tíundi ýmislegt annað sem verið er að reyna að gera og menn hafa verið að reyna að gera. En smátt og smátt hefur málið þróast þannig, vegna þess hvernig menn hafa kynt upp væntingarnar um að hér sé jafngríðarlegt hagsmunamál á ferðinni og raun ber vitni og ýtt til hliðar öllum efasemdum um að allt hið góða muni ekki ganga eftir, að þannig hefur það lagst í umræðunni. Kannski er það aðallega af sálrænum ástæðum. En slíkir hlutir skipta líka máli í efnahagsmálum, byggðamálum og öðru slíku. Ég óttast að það geti ekki orðið annað en áfall, vonbrigði og bakslag, a.m.k. gagnvart þeim mönnum eystra sem mest hafa trúað á þetta sem frambúðarlausn og mikla lyftistöng. Nú er mér auðvitað ljóst að það er mismunandi hversu sannfærðir menn hafa verið um það. Er eitthvað að því þó að ég segi þetta? Má ég ekki draga athyglina að þessum hluta málsins af þeirri ástæðu að ég hef gagnrýnt virkjanaframkvæmdirnar og er sérstaklega á móti þeim umhverfisfórnum sem þeirri virkjun sem hér er til umræðu, eru samfara? Þetta er efnisleg umfjöllun um eitt atriði þessa máls, eða hvað, herra forseti?