Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Miðvikudaginn 17. nóvember 1999, kl. 18:34:02 (1673)

1999-11-17 18:34:02# 125. lþ. 27.1 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, JónK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 125. lþ.

[18:34]

Jón Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég vona svo sannarlega að af þessum framkvæmdum verði. Ég hef barist fyrir því og mun halda áfram að berjast fyrir því. En ég vil endurtaka það að við höfum komið algjörlega heiðarlega fram gagnvart Austfirðingum í þessu máli. Við höfum sagt, og mér er kunnugt um að við í Framsóknarflokknum höfum sagt við Austfirðinga: ,,Þið skulið ekki láta þetta mál koma í veg fyrir aðrar hugmyndir sem uppi eru. Þetta er landsmál fyrst og fremst. Byggðamálin eru viðbótarkostur í þessu máli, mjög góður kostur að mínu mati. En hann á ekki að koma í veg fyrir neina aðra uppbyggingu, heldur mun þetta hjálpa henni til ef af þessu verður.`` Austfirðingum hafa aldrei verið gefnar falskar vonir í þessu máli. En ég vona svo sannarlega að þetta mál gangi eftir.

Ég skal taka það aftur ef ég hef snúið út úr fyrir hv. þm. um að hann hafi sagt að Austfirðingar biðu með hendur í skauti. Ég tek það þá aftur og biðst afsökunar á því ef að ég hef snúið út úr orðum hans að því leytinu.