Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Miðvikudaginn 17. nóvember 1999, kl. 18:35:25 (1674)

1999-11-17 18:35:25# 125. lþ. 27.1 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 125. lþ.

[18:35]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Falskar vonir nefndi ég heldur ekki á nafn í minni ræðu. Ég vísaði til þess hvernig þessi umræða hefur þróast og það ber sjálfsagt enginn einn sök, heldur hefur það gerst að einhverju leyti að hún hefur jafnvel tekið af mönnum völdin. Umræðan hefur farið að lúta sjálfstæðum lögmálum og lifað í sjálfri sér. En hún hefur þróast í þennan farveg. Þeir menn sem t.d. hafa kallað þetta eitt mesta byggðamál Íslandssögunnar verða auðvitað að bera ábyrgð á þeim orðum sínum, er það ekki? Og aðrir sem hafa dregið upp með mjög sterkum litum og sterkum dráttum ... (JónK: Það sagði ég ekki.) Nei, en ,,stærsta byggðamál síðari tíma``, hafa bæði utanrrh. og, ég hygg, forsrh. sagt. Þeir verða að bera ábyrgð á þeim orðum. Sporin hræða líka í þessum efnum. Ég nefndi Eyjafjarðarsvæðið. Við getum líka nefnt Keilisnes. Var það ekki þannig að meira að segja fasteignaverð var farið að hækka þar og sveitarfélagið var komið á fulla ferð að gera ráðstafanir til undirbúnings þeirri gífurlegu uppbyggingu sem þar átti að verða. Það má nefna mörg fleiri slík dæmi sem öll ættu að hvetja menn til hins sama, þ.e. að ganga hægt um gleðinnar dyr og gefa sér ekkert fyrir fram sem niðurstöðu í þessum efnum.