Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Miðvikudaginn 17. nóvember 1999, kl. 18:39:39 (1677)

1999-11-17 18:39:39# 125. lþ. 27.1 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, EMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 125. lþ.

[18:39]

Einar Már Sigurðarson (andsvar):

Herra forseti. Það sem breyst hefur er greinilega spurningin um það hvort menn standi við það sem þeir segja í umhverfismálum. Það væri auðvitað betra ef hv. þm. kæmi hér og færi örlítið yfir það hvað hann sagði í umhverfismálum árið 1990. Væntanlega hefur það breyst verulega vegna þess að árið 1990 lék enginn vafi á því að hv. þm. studdi álver sem yrði reist á Austurlandi með þeirri orku sem fengist frá Fljótsdalsvirkjun. Það er ljómandi gott að það skuli koma hér fram að hv. þm. hefur breytt um afstöðu og það er lofsvert að hv. þm. skuli viðurkenna slíkt því að því miður hefur skort á að hann hafi viðurkennt að nú séu viðhorf hans í þessum efnum breytt. Það er sem sagt lofsvert og ég þakka hv. þm. það.