Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Miðvikudaginn 17. nóvember 1999, kl. 19:11:25 (1691)

1999-11-17 19:11:25# 125. lþ. 27.1 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, ÓÖH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 125. lþ.

[19:11]

Ólafur Örn Haraldsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er maður reglna og samfélagslegra samskiptahátta sem viðurkenndir eru. Þeir samskiptahættir sem við höfum komið okkur saman um eru að sætta okkur við þá niðurstöðu sem kemur frá umhverfismati. Í hjarta mínu ætti ég reyndar mjög erfitt með að sætta mig nokkurn tíma við að þessum náttúruperlum yrði fórnað. Það er persónuleg skoðun mín. En ég sem stjórnmálamaður yrði að sætta mig við þá niðurstöðu sem þar kæmi, væri hún á þann veginn. Það er einungis það sem ég er að kalla eftir en ekki eins og einn þingmaður sagði hér úti í sal: Er þér þá alveg sama um þetta ef það bara fær þennan andlátsyfirlestur?

Varðandi mat á umhverfisáhrifum þá er það hárrétt sem hv. þm. bendir á og ein af rökunum fyrir því að setja þetta í mat á umhverfisáhrifum að fá fram fleiri kosti. (Forseti hringir.) Það er einmitt það sem afvopnar okkur hér. Við stöndum frammi fyrir einum kosti sem við verðum að taka afstöðu til hvort sem okkur líkar betur eða verr.