Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Miðvikudaginn 17. nóvember 1999, kl. 19:39:06 (1709)

1999-11-17 19:39:06# 125. lþ. 27.1 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, EMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 125. lþ.

[19:39]

Einar Már Sigurðarson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. sagðist andvígur þeirri þáltill. sem hér liggur fyrir og reyndi út frá byggðasjónarmiðum að færa rök fyrir þeirri andstöðu sinni. Ég hlustaði grannt og gat ekki betur skilið en ástæðan væri sú að hér var á ferðinni verkefni af þeirri gerð að ekki væri tekið heildstætt á málefnum landsbyggðarinnar heldur mundi eingöngu takmarkað svæði á landinu njóta framkvæmdarinnar.

Ég get á margan hátt skilið hv. þm. sem hafa notað hin umhverfislegu rök gegn framkvæmdinni. Ég verð að segja eins og er, hv. þm., að þetta þykir mér nokkuð langt seilst í andstöðu að engin verk megi framkvæma nema þau nýtist hverjum einasta manni á landsbyggðinni.