Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Miðvikudaginn 17. nóvember 1999, kl. 19:45:09 (1717)

1999-11-17 19:45:09# 125. lþ. 27.1 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, GunnB
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 125. lþ.

[19:45]

Gunnar Birgisson:

Virðulegi forseti. Við erum að ræða þáltill. um framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun og raunar eru framkvæmdir við þessa ágætu virkjun löngu hafnar. Búið er að gera vegi um allt virkjanasvæðið og byrjað að sprengja munna og annað slíkt. (Gripið fram í.) Það var eitt ágætt fyrirtæki sem gerði það.

Það er ekki spurning um að lagaleg stoð sé fyrir þessum framkvæmdum en samt er það aðalmálflutningur stjórnarandstöðunnar að svo sé ekki og verið er að draga í efa lög sem sumir þingmenn stjórnarandstöðunnar samþykktu á sínum tíma.

Ég er með úrslit í atkvæðagreiðslum, herra forseti, nr. 8981 og 8999, um þetta ágæta frv. sem var samþykkt og ákvæði til bráðabirgða vegna þessarar virkjunar og sama fólk er að koma hér upp og mótmæla því að það sé lagaleg stoð fyrir þessum hlutum.

Það er líka ljóst í þessu máli að ef álver verður byggt á Reyðarfirði og virkjun reist í Fljótsdal er það grunnur efnahagslegra framfara á Íslandi til framtíðar og fyrir framtíðarkynslóð okkar, ég tala ekki um Austfirði og Austfirðinga því að Austfirðingar eru líka fólk.

Úttekt á umhverfisáhrifum hefur verið mjög ítarleg og hafa fá svæði verið eins vel rannsökuð hér á landi. Spurningin snýst um hvort við eigum að virkja fallvötnin okkar eða ekki og hvort við eigum að sleppa því að virkja eitt stærsta vatnasvæðið á Íslandi.

Eitt veigamesta atriðið í umræðunni er að kominn er væntanlegur kaupandi að raforku á Reyðarfirði þó það sé ekki öruggt. Ef hann er látinn bíða í eitt ár, tvö ár eða þrjú ár getur hann verið farinn. Það verður að hamra járnið meðan það er heitt.

Allt hugsandi fólk í landinu vill framfarir, það vill bætt lífskjör og það vill styrka undirstöðu undir velferðarkerfið. Stóriðja er einn þeirra þátta sem stuðlar að þessu. Velferð kemur ekki af sjálfu sér. Hún kemur ekki með orðagjálfri og endalausum athugunum og tillögum.

Afstaða vinstri grænna er klár. Þeir eru flestir á móti virkjunum og einstakir þingmenn hafa lýst sig mótfallna slíkum framkvæmdum og bent í staðinn til atvinnusköpunar, tínslu fjallagrasa, heimilisiðnað, hvort sem það er að prjóna lopapeysur og slíkt, beint flug ferðamanna til Austurlands og þeir sem eru framfarasinnaðastir telja best að virkja bæjarlæki og bergvatnsár eins og einhver þeirra komst að orði.

Öðru máli gildir um þingmenn Samfylkingarinnar. Þeir eru flestir á móti þessu ágæta máli en þeir voru einu sinni meðmæltir þessari framkvæmd. Afstaða Samfylkingarinnar er pólitískur loddaraleikur og einhvern veginn finnst mér að afstaða einstakra þingmanna Samfylkingarinnar sé háð því hvernig þeir haldi að almenningsálitið sé hverju sinni.

Afstaða hv. þm. Sverris Hermannssonar er mér gersamlega óskiljanleg. Það hefur verið rætt mikið um að hér sé verið að vinna skemmdarverk og annað slíkt. Ég vil minna á og benda á að aðgengi og umgengni Landsvirkjunar um þau svæði sem hún hefur virkjað er til mikillar fyrirmyndar og hefur opnað fyrir ferðamennina á þau svæði. Meðal annars var mjög erfitt að komast til Eyjabakka þangað til þessir ágætu vegir voru lagðir. Það var ekki hægt nema með miklum erfiðismunum.

Hér hefur verið karpað um þetta mál fram og aftur og endurtekningar í hámarki. Ég ætla að spara mér að fara mikið í gegnum það en afstaða mín er alveg ljós í þessu máli. Ég styð þessa þáltill.

Ég vil að lokum lesa fyrir hv. þm. reglugerð um mat á umhverfisáhrifum, nr. 179/1994 af því að ég efast um að allir þingmenn hafi lesið þetta. 5. gr. hljómar svona, með leyfi forseta:

,,Í mati á umhverfisáhrifum skal tilgreina á viðeigandi hátt, bein og óbein, jákvæð og neikvæð, skammtíma og langtíma, afturkallanleg og óafturkallanleg áhrif sem framkvæmdir og fyrirhuguð starfsemi, sem þeim fylgir, kunni að hafa á menn, samfélag og menningu, menningararf, dýr, plöntur og aðra þætti lífríkis, jarðveg, vatn, loft, veðurfar, jarðmyndanir, landslag og samverkan þessara þátta. Þar skal og gera grein fyrir áhrifum framkvæmda á efnisleg verðmæti og því hvaða forsendur liggja til grundvallar matinu.``

Svo mörg voru þau orð. Ég vil taka það fram og benda á að hérna er líka talað um fólk. Ég bendi á að í þessum umræðum um mat á umhverfisáhrifum hefur manneskjan verið lítið til umræðu.