Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Miðvikudaginn 17. nóvember 1999, kl. 20:03:30 (1719)

1999-11-17 20:03:30# 125. lþ. 27.1 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 125. lþ.

[20:03]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Mér þótti afskaplega gaman að hlusta á lýsingu hv. þm. frá Hrafni á Hallormsstað um ferðamennsku framtíðarinnar en þó mundi ég frekar vilja ganga á Snæfell en að fara með svifbraut. Mig langar að gera örlitla athugasemd við öryggisþáttinn sem hv. þm. nefndi og minna á að það standa yfir deilur um það hvort Snæfell sé virkt eldfjall eður ei. Það getur allt eins verið það.

Öryggisþátturinn er kannski ekki hvað síst fólginn í þeim athugunum sem eiga mögulega eftir að fara fram, eða þarf að gera opinberar í öllu falli, sem heita á fagmáli hættumat. Mér hefur borist til eyrna að til sé hættumat fyrir Fljótsdalsvirkjun og ég minnist þess að hafa lesið það í einhverju af þeim plöggum sem við höfum lesið undir drep síðustu daga að það hafi verið fjallað um það einhvers staðar að þó að stíflan brysti væri svo mikið viðnám á leiðinni niður í Fljótsdalinn að það yrði alveg hægt að gera fólki á Egilsstöðum viðvart áður en flóðbylgan skylli á þorpinu. Mér fannst þetta satt að segja skelfileg lýsing en þarna sleppti henni og ég bendi á að það á eftir að opinbera hættumat fyrir Egilsstaði. Hvað gerist þegar búið er að bjarga fólkinu undan flóðbylgjunni? Sökkva þá Egilsstaðir?

Stíflur eru ákaflega mikil mannvirki og samkvæmt erlendum rannsóknum, mjög svo umfangsmiklum, hafa jafnvel verið leiddar líkur að því að þær geti átt þátt í að koma af stað jarðskjálftum vegna þess hve þær þrýsta á jarðskorpuna. Þetta mat er eitt af því sem mundi verða lagt fram ef lögformlegu ferli væri fylgt.