Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Miðvikudaginn 17. nóvember 1999, kl. 20:40:11 (1721)

1999-11-17 20:40:11# 125. lþ. 27.1 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, JÁ
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 125. lþ.

[20:40]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Þessi þáltill. er pólitískur loddaraleikur Samfylkingarinnar, sagði einn hv. þm. stjórnarflokkanna áðan. Ég segi hins vegar: Þessi þáltill. er pólitískur loddaraleikur stjórnarflokkanna því þeir eru að reyna að rétta hlut sinn í umræðunni. Hún er til komin vegna þess að stjórnarliðar kveinka sér undan eðlilegri gagnrýni almennings á að ekki skuli vera staðið eins að undirbúningi þessa máls og gert yrði ef önnur sambærileg virkjun eins og Fljótsdalsvirkjun ætti í hlut.

Ég fagna því að málið skuli koma til umræðu á Alþingi en ég er ósáttur við að það skuli vera gert með þeim hætti sem raun ber vitni. Með því að leggja fram þáltill. eru stjórnarflokkarnir ekki að leggja til að Landsvirkjun fái neinar heimildir sem hún hefur ekki nú þegar. Þeir eru ekki að leggja til að hið raunverulega ágreiningsmál sem er á milli stjórnar og stjórnarandstöðu og þjóðarinnar og ríkisstjórnarinnar verði lagt fyrir þingið, þ.e. hvort Fljótsdalsvirkjun skuli fara í venjulegt umhverfismat samkvæmt núgildandi lögum. Þeir eru ekki að leggja það fyrir á hv. Alþingi.

Hæstv. umhvrh. sagði að þetta væri tækifæri fyrir þingmenn til að gera hug sinn upp á nýtt og gefa almenningi kost á að koma að málinu. Þetta eru hin mestu öfugmæli. Það er auðséð að engum er gefið tækifæri til að gera hug sinn upp á nýtt í sölum Alþingis því að þumalskrúfurnar eru á stjórnarliðum og enginn þeirra mun bregðast þegar til atkvæðagreiðslu kemur eftir því sem ég get komist næst. Einungis tveir stjórnarliðar hafa látið það koma fram að þeir séu ósammála því atferli sem ríkisstjórnin stendur fyrir í sölum Alþingis.

Ég er líka ósammála málsmeðferðinni sem hér á að viðhafa. Það er verið að gera tilraun til þess að smeygja hinni raunverulegu ákvörðun sem hér á að fara fram, þ.e. að láta nefndir þingsins framkvæma einhvers konar umhverfismat, fram hjá afgreiðslu þingsins. Með því að vísa málinu til nefndar ætla ríkisstjórnarflokkarnir að fá fram þessa vinnu úr nefndum þingsins, þ.e. að nefndirnar framkvæmi umhverfismat. Ekki verður tekin nein ákvörðun um það í sölum Alþingis samkvæmt því sem menn stofna hér til. Hér á einungis að fara fram atkvæðagreiðsla, hæstv. forseti, um það að vísa málinu til nefndar, ekki atkvæðagreiðsla um hvort nefndirnar eigi að leggja vinnu í að láta fara fram umhverfismat á sínum vegum í nefndunum eins og stjórnarliðar eru búnir að segja frá í hverri ræðunni á fætur annarri að eigi að gerast í nefndunum. Ég er afskaplega ósáttur við þennan málatilbúnað en ég geri mér grein fyrir því, hæstv. forseti, að ef þessi málatilbúnaður verður viðurkenndur í hv. Alþingi, getur stjórnarandstaðan nýtt sér slíkar aðferðir, að vefja verkefni handa nefndum þingsins saman við þær þáltill. sem hér eru lagðar fram og sjá til þess með þeim hætti að nefndirnar vinni verkefni sem Alþingi hefur þá í raun og veru aldrei falið þeim en eru fylgifiskur þáltill. sem lagðar eru fram. Mér finnst þetta nýjung í störfum Alþingis og ég bið hæstv. forseta að velta því fyrir sér hvort svona eigi að standa að málinu og hvort það sé þingleg aðferð sem hér er viðhöfð.

[20:45]

Það er rótgróin venja í hv. Alþingi að vísa málum til þess sem menn kalla þinglegrar meðferðar og það er nánast aldrei að það komi fyrir að mál fái ekki slíka meðferð. Ég tel því að þegar málinu verður vísað til nefndar sé ekki falin í því ákvörðun um að þessar nefndir eigi að vinna að umhverfismati fyrir Fljótsdalsvirkjun. Það hlýtur þá að vera sjálfstæð ákvörðun viðkomandi nefndar hvort hún tekur að sér að fara í verkefni sem öðrum aðila hefur raunverulega verið falið með lögum, stjórnvaldsaðila í þjóðfélaginu. Þetta vildi ég að kæmi fram vegna þess að ég tel að þarna sé undarlega staðið að verki.

Allt öðru máli mundi gilda ef Alþingi hefði falið nefndum þingsins þetta hlutverk með sérstakri ályktun en þá þarf sú ályktun að fá umræðu í þinginu til þess að hægt sé að taka ákvörðun með eðlilegum hætti.

Samfylkingin hefur talað alveg skýrt. Afstaða hennar kom strax fram í upphafi umræðunnar. Gerð var grein fyrir brtt. við þessa tillgr. og í sjálfu sér getur maður sagt að með því að samþykkja slíka tillögu væri hægt að gefa umfjöllun hv. Alþingi um málið merkingu, þ.e. með því að bæta við þessa tillögu þeirri tillögu okkar að fram fari lögformlegt umhverfismat. Við lýsum líka yfir stuðningi við áform um gerð Fljótsdalsvirkjunar í þessari brtt. enda hafi farið fram umhverfismat með þeim hætti sem gert er ráð fyrir í lögunum um þessi efni.

Reynt hefur verið að snúa út úr þessu með öllum ráðum í umræðunum og menn hafa haldið því fram að þeir sem vildu standa svona að málum væru að blekkja með þessum málflutningi. Ég get ekki fallist á að rétt sé að líta þannig á. Við sem þetta viljum erum einfaldlega að segja: Við skulum láta þessar aðferðir gilda um allar virkjanir á Íslandi sem eftir er að taka ákvörðun um og við höfum líka lagt fram lagafrv. til að taka af allan vafa í málinu um þær virkjanir sem hafa leyfi núna. Vilja hv. þingmenn stjórnarflokkanna að farið verði í allar þær virkjunarframkvæmdir, þar sem nú er leyfi til að virkja án þess að fram fari umhverfismat, án þess að það fari fram umhverfismat? Ég held að ástæða væri til þess að hv. þingmenn stjórnarflokkanna svöruðu því.

Ég nefni eitt dæmi. Fyrir liggur leyfi til virkjunar í Borgarfirði. Þetta virkjunarleyfi er í miðjum Borgarfirðinum. Halda menn að það yrði því máli til framdráttar að ekki færi fram umhverfismat á þeirri virkjun áður en kæmi þar til framkvæmda? Þetta er í miðjum Borgarfirðinum þar sem er byggt allt í kring. Þetta er á mjög áberandi stað. Halda menn að það yrði málinu til framdráttar ef menn kæmu bara með niðurstöðuna og legðu hana á borðið og segðu: Svona skal þetta vera. Hér eru öll leyfi til staðar. Gerið þið svo vel.

Nei, það er ekki hægt að horfa þannig á málið að það sé alveg sama hve langt er liðið frá því að menn fengu leyfið til þess að virkja og þangað til að framkvæmdum kemur. Það er ekki boðlegur málflutningur að tala með þeim hætti.

Það sem hefur líka verið mikið haft uppi í ræðum hv. þm. er að það sé enginn tími. Þetta tapist allt saman ef menn geti ekki rétt upp höndina núna strax. Ég spyr: Hefur verið gáð að því? Hefur það verið reynt? Enginn hv. þingmanna stjórnarflokkanna og enginn hæstv. ráðherra, sem hafa komið í ræðustól, hefur gert grein fyrir því hvort reynt hafi verið að ná samkomulagi um að taka sér tíma til að láta fara fram umhverfismat með þeim hætti sem hér er talað um. Ég fullyrði að sá aðdragandi sem er að málinu er búinn að vera það langur að ekki er hægt að trúa því fyrir fram að þeir aðilar sem eiga hlut að málinu væru ekki tilbúnir til þess að bera klæði á vopnin og taka þátt í því að sætta sjónarmið með því að láta fara fram umhverfismat fyrir Fljótsdalsvirkjun en hlypu ekki frá málinu vegna þess að það yrði einhver lítils háttar bið á því að menn gætu hafist handa sem enginn veit svo sem um hvort yrði. Það eru einfaldlega vangaveltur sem menn hafa verið með um hve langan tíma kæruferlið tæki og verið að gefa sér að þetta ferli tæki miklu lengri tíma en það sem við höfum séð áður.

Hæstv. umhvrh. nefndi meira að segja að það væri jafnvel ólöglegt að láta fara fram umhverfismat fyrir Fljótsdalsvirkjun. Ég held að fráleitt sé að halda því fram eða var það þá ólöglegt að láta fara fram umhverfismat fyrir Gilsfjarðarbrú? Gilsfjarðarbrú hafði undanþágu eins og hinir virkjunarkostirnir sem hér hafa verið til umræðu og sem betur fer tóku menn þá ákvörðun að láta þá framkvæmd fara í umhverfismat til þess að sætta sjónarmið. Það tókst vel og ég er sannfærður um að það yrði þessu máli til gæfu ef menn sættust á að láta fara fram umhverfismat.

Ég er einn af þeim sem halda því fram að það bráðliggi á því að rammaáætlun um virkjun vatnsafls á Íslandi verði tekin til afgreiðslu á hv. Alþingi og að þannig geti menn raðað upp þessum virkjanakostum í framkvæmdaröð og fengið upp stefnu í landinu til umræðu þar sem menn gætu tekist á um framtíðina og stjórnvöld hefðu þá í hendi sinni stefnu sem hægt væri að vinna eftir þegar kemur að því að ræða um kosti eins og þá sem hér eru til umræðu.

Ég gef lítið fyrir það að menn þurfi að borga skaðabætur til Landsvirkjunar vegna þess að þetta mál verði tekið upp. Ég gef mér að hægt verði að ná samkomulagi við Landsvirkjun og ég gef mér að hægt sé að ná samkomulagi við þá aðila alla sem eiga hlut að þessu máli til að láta fara fram umhverfismat ef vilji væri fyrir hendi. En það hefur komið mjög skýrt fram af hálfu ríkisstjórnarflokkanna og þeirra sem styðja málið að þessi vilji er alls ekki fyrir hendi og hefur aldrei verið það. Hæstv. umhvrh. Guðmundur Bjarnason fór fram á að þessi leið yrði farin en hann fékk því ekki framgengt. Síðan eru liðnir langir dagar og nú telja menn að enginn tími sé eftir. Ég er ósammála því og ég tel að það hefði átt að láta reyna á það við samningsaðilana.

Það er líka ömurlegt að sjá að íslensk stjórnvöld eru enn þá einu sinni í þeirri vesældarlegu stöðu að þau eiga allt undir samningsaðilunum sem við er að eiga. Íslenska ríkisstjórnin er búin að tefla þessu máli þannig að hún er í pólitískri nauðhyggju, hún verður að semja um þetta álver og þeir sem munu semja um raforkuverð við hana vita það og munu keyra niður verðið eins og kostur er. Nú setja þeir sitt hald og traust á að Norðurál muni vera tilbúnið að koma inn í þetta spil en það er líka sá eini möguleiki sem gæti orðið til þess að hægt yrði að ná viðunandi raforkuverði. Vonandi tekst það. En því miður er málið í þeim farvegi að ekki er ástæða til að vera mjög bjartsýnn á að verðið verði viðunandi sem fæst fyrir raforkuna.