Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Miðvikudaginn 17. nóvember 1999, kl. 21:04:03 (1723)

1999-11-17 21:04:03# 125. lþ. 27.1 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, PHB
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 125. lþ.

[21:04]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Þessi umræða einkennist af því að menn eru að deila um sjónarmið. Þeir sem vilja ekki virkja og ekki sökkva Eyjabökkum í vatn hafa sitt sjónarmið og þeir horfa eingöngu á það sjónarmið. Þeir hafa ákaflega þröngt sjónarhorn. Ef við settum þau gleraugu upp varðandi aðrar framkvæmdir, t.d. breikkun vegar upp Ártúnsbrekkuna í Reykjavík, þá hefði hún aldrei verið framkvæmd. Skolplagnir í Reykjavík hefðu heldur ekki verið lagðar ef menn hefðu haft þetta þrönga sjónarhorn að leiðarljósi. Svo maður tali nú ekki um rafmagn. Við í Reykjavík mundum hafna því að fá rafmagn hingað í borgina ef við hefðum þetta þrönga sjónarmið að líta eingöngu til umhverfissjónarmiða.

Að sjálfsögðu megum við ekki eingöngu líta til umhverfissjónarmiða. Við verðum líka að líta til annarra sjónarmiða svo sem að útrýma fátækt sem sumir tala um að sé til á Íslandi, svo sem eins og að bæta velferðarkerfið, svo sem eins og að auka velmegun og bæta lífskjör. Það eru sjónarmið sem líka þarf að hafa í huga.

Herra forseti. Hv. Alþingi setur lög sem eru rammi um ákveðna hluti, eins og t.d. umhverfismat. Þegar menn setja lög þá þurfa þeir að átta sig á innihaldinu, afleiðingum laganna. Þeir sem fullyrða að Alþingi geti sett lög um innihald, t.d. umhverfismat, en geti ekki fjallað um innihaldið sjálft, átti sig sem sagt ekki á afleiðingu laga sinna, eru í undarlegri stöðu.

Þegar lögin voru sett á sínum tíma þá var byrjað á framkvæmdunum sem við erum að tala um. Framkvæmdir voru hafnar og þess vegna var ekki hægt að setja um það lög, því ekki er hægt að setja lög sem virka aftur fyrir sig. Það er grundvallaratriði. Þess vegna erum við ekkert að fjalla um það hér hvort þessar virkjanir hafi verið heimilaðar, heldur er Landsvirkjun búin að framkvæma ágætis umhverfismat og hv. þingmönnum, og alveg sérstaklega andstæðingum þessara virkjana, er boðið upp á umræðu um málið, um þetta umhverfismat. Þeir eiga að þakka fyrir. Ég hef ekki heyrt enn þá neinn þakka fyrir það að vera boðið upp á þessa umræðu.

Herra forseti. Okkur ber að nýta auðlindir okkar. Það er almennt talið skylda að nýta auðlindir. Flestar íslenskar ár renna óbeislaðar til sjávar ár eftir ár engum til gagns. Enginn nýtir þessar auðlindir. (Gripið fram í: Laxveiði.) Að einhverju leyti laxveiði, já. Það er skylda okkar að nýta þessar auðlindir því þær geta malað okkur gull. Við sjáum það á Landsvirkjun sem hefur byggt upp eigið fé upp á fleiri tugi milljarða út úr nánast engu.

Það er ákveðin firring fólgin í því að halda því fram að horfa eigi bara á umhverfissjónarmiðin, eingöngu þau sjónarmið. Það er svona svipað eins og með Keikó, en sumt fólk heldur að hvalir, sem eru meira að segja einar grimmustu skepnur sem til eru, hafi öðlast mannlega eiginleika eins og í teiknimyndasögu. Þetta er firring. Þetta er nákvæmlega sama firringin og þegar fólk heldur að góð lífskjör komi af sjálfu sér. Það fólk getur ekki litið einu sinni hundrað ár aftur í tímann þegar Íslendingar bjuggu í moldarkofum. Það getur heldur ekki litið í kringum sig í heiminum þar sem helmingur mannkyns þarf að lifa af tveim dollurum á dag og fjórðungur mannkyns á einum dollara á dag. Það er raunveruleikinn sem við horfum á. Það er ekkert sjálfgefið að lífskjörin séu góð. Menn geta ekki leikið sér að því að horfa eingöngu út frá einu sjónarmiði og segja: ,,Nú virkjum við ekki út af þessu. Við virkjum ekki þarna út af þessu.`` Það má bara hvergi virkja. Auðvitað þurfum við að líta á öll sjónarmið sem koma til greina.

Það er nánast skylda okkar gagnvart umheiminum að virkja. Þrátt fyrir það höfum við að sjálfsögðu ákveðna staði sem við viljum ekki virkja. Ég gæti t.d. seint fallist á að virkja Gullfoss. En auðvitað ef það yrði hungursneyð í landinu þá kynni að vera að það sjónarmið vægi þyngra, jafnvel þyngra en Gullfoss. (ÖS: Ætlar þú að eta rafmagnið?) Rafmagnið er undirstaða ákveðins iðnaðar sem skilar hagnaði og getur gefið manni brauð að borða, eftir ýmsum leiðum sem hv. þm. eru hugsanlega kunnar, verslun og slíku.

Herra forseti. Eyjabakkar hafa mikið verið í umræðunni og menn hafa horft eingöngu á þá. Jeppaeigendur, skotveiðimenn og ferðafélög hafa mótmælt hvað harðast, þ.e. þeir aðilar sem fara verst með aðrar náttúruperlur Íslands, t.d. jeppamenn, keyrandi um allt, skotveiðimenn, keyrandi líka og vaðandi um allar heiðar (ÖS: Og skjótandi á allt kvikt.) og skjótandi allt sem kvikt er. Ferðafélögin hafa byggt heilu þorpin inn í Þórsmörk. (ÖS: Gangandi út um allt.) Heilu þorpin hafa verið byggð inn í Þórsmörk án umhverfismats. Þar er búið að leggja tröppur upp öll fjöll. Var það einhvern tímann meiningin? Er það ósnortið víðerni? Það eru komnar tröppur upp Valahnjúk í Þórsmörk. Ég bara bíð eftir að það komi rúllustigi. (Gripið fram í: Það kemur næst.) Nei, ég held að menn þurfi að horfa á aðrar náttúruperlur í leiðinni og ekki einblína á þessa einu sem allt í einu er uppgötvuð, því hún var ekki til í umræðunni fyrir fimm eða tíu árum. Það bara vissi enginn hvar hún var. Ég vissi það ekki. Ég vissi aftur á móti hvar Þórsmörk var og ég sá hvað er búið að gera í Þórsmörk. Þar eru þrjú þúsund manns um hverja helgi. Jeppastraumurinn liggur þangað inn eftir upp úr klukkan fjögur á föstudögum, heill floti af jeppum. Reyndar er aðgangurinn að Þórsmörk, eins og hv. þm. er kunnugt, takmarkaður við jeppaeign. Þeir sem eiga jeppa komast þangað inn eftir, aðrir ekki. Almenningur kemst þangað með rútum og borgar afar hátt fargjald fyrir 25 km.

Svo eru aðrir að mótmæla þessu, fréttamenn t.d. sem eru flugmenn þess utan. En ef allir Íslendingar mundu fljúga jafnmikið og þeir þá sæist ekki til sólar upp á hálendinu. Þessir menn leyfa sér að nota hálendið dag og nótt, aftur og aftur. En ef allir gerðu það í sama mæli og þeir þá væri hálendið allt orðið ein auðn.

Herra forseti. Hér hefur mikið verið rætt um mengun. Mengun er ekki staðbundin. Mengun er alheimsfyrirbæri. Það sem mengað er í Evrópu kemur hingað og þess vegna er það nánast skylda okkar að nýta okkar hreinu orku til þess að hindra að óhrein orka sé notuð annars staðar. Það er allt að því siðferðileg skylda okkar að virkja sem allra mest til þess að minnka alheimsmengunina, en raforka og ál er víða framleitt með kolum til dæmis.

Herra forseti. Það má líka líta á önnur sjónarmið eins og byggðasjónarmið. Þó ég gefi þeim ekkert ákaflega mikið vægi þá er ekki spurning að þetta álver mun bæta stöðu Austfjarða, þó ekki væri nema sálfræðilega. Það er þekkt fyrirbæri að þegar álverið í Straumsvík var stækkað, þá hækkuðu íbúðir í Hafnarfirði stórlega í verði. Hafnarfjarðarbær nýtur góðs af afar háum greiðslum þessa fyrirtækis. Sama mun gerast á Austfjörðum. Íbúðir munu hækka í verði. Fólkið mun fyllast bjartsýni og sveitarfélögin munu hafa úr meiru að moða, geta veitt betri þjónustu. Þetta er líka sjónarmið sem þarf að horfa á. Það er ekki bara einhver mosi og falleg grös uppi á Eyjabökkum sem menn þurfa að horfa til. Það þarf líka að líta til fólksins sem býr á Austfjörðum. Því virðast sumir alveg hafa gleymt.

Herra forseti. Sumir þeir sem mótmæla þessu hafa af einhverjum undarlegum ástæðum haft áhyggjur af velferð væntanlegra fjárfesta, sem sumir kalla braskara, þar á meðal hv. þm. Ögmundur Jónasson. Hann hafði miklar áhyggjur af því að aumingja fólkið sem fjárfesti í þessu álveri færi nú að tapa. Öðruvísi mér áður brá. Þeir sem munu fjárfesta þarna eru væntanlega að stórum hluta íslenskir lífeyrissjóðir. Og það vill svo til að hv. þm., sem að vísu er ekki viðstaddur, er í stjórn lífeyrissjóðs og hann treystir ekki kollegunum betur en þetta, félögum sínum í stjórnum lífeyrissjóðanna, að þeir fari illa með fé lífeyrissjóðanna í þessu og kunni ekki að taka fjárfestingarákvarðanir. Ég treysti þeim fullkomlega. Ég treysti því að þeir sem leggja peninga í svona hluti hafi reiknað dæmið alveg til enda. Svo kynnu hv. þm. sem óttast um peningana sína hjá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins náttúrlega að spyrja sig hvort þeir hafi ekki kosið þá stjórn sem situr þar. (ÖS: Þú treystir einmitt ekki stjórnunum. Þess vegna hefur þú verið með ...) Akkúrat já, það skyldi nú ekki vera. En þeir bera bara ábyrgð á því. Þeir skulu bara bera ábyrgð á því. (ÖS: Þú ert ekki samkvæmur sjálfum þér.)

Ég hef áhyggjur af einu í þessu sambandi og það er ríkisvæðingin. Þarna er ríkið að virkja. Ríkið er að þenja út anga sína og ég treysti því að hæstv. iðnrh. standi við það sem hann hefur talað um, að koma á samkeppni og einkavæða allt orkukerfið. Ég vona að það standi. Þá yrði Landsvirkjun skipt upp og seld og þar á meðal Fljótsdalsvirkjun hf. sem Austfirðingar og aðrir gætu keypt hlutabréf í. (Gripið fram í: Og Eyjabakkana með.) Sokkna, já.

[21:15]

Herra forseti. Mikið hefur verið talað um ferðamenn og ferðamannaiðnað. Samt er sá iðnaður lágtekjuiðnaður nánast alls staðar í heiminum. Hvergi eru borguð há laun fyrir að búa um rúm eða elda mat. Auk þess krefst ferðamannaiðnaður mikillar fjárfestingar og ótryggrar og þessi atvinnugrein er alveg sérdeilis ótrygg. Það þarf ekki nema óhagstæð ummæli einhvers staðar um jarðskjálfta, eldgos eða eitthvað svoleiðis og allt er búið. Þetta er ein ótryggasta atvinnugrein í heimi. Auk lágra launa mengar hún heil ósköp. Það er fullt af rútum um allt, flugvélagnýr og alls konar mengun sem taka þarf afstöðu til. Fyrir utan það er geysilegur átroðningur á náttúruperlum okkar á hálendinu.

Í þá ágætu skýrslu sem við höfum hér til umræðu vantar einn þátt, þ.e. hvernig náttúran breytist og aðlagar sig. Það hefur nefnilega gerst áður hér á Íslandi að stíflast hefur af náttúrulegum ástæðum. Ég sá þegar Skaftá hafði ausið aur og leðju yfir stór svæði. Og hvað gerir náttúran? Hún bregst við. Hið nákvæmlega sama mun hún gera vegna virkjunarinnar. Hún mun bregðast við. Það koma nýjar lindir, nýjar mýrar og gæsin mun finna nýja staði. Þannig hefur það alltaf verið.

En til viðbótar verða gljúfrin miklu manngeng. Við getum farið að skoða þau. Flest okkar hv. þm. munum væntanlega ekki þora að fara á einhverjum prömmum þarna niður eða fljúga þarna niður ... (Gripið fram í: ,,Rafting``.) eða ,,rafting``. Nú getum við farið að skoða þetta. Margir ferðamenn munu skoða þessa virkjun, fallega stíflu og fallegt stöðuvatn nákvæmlega eins og flestir ferðamenn sem koma til landsins skoða manngerð mannvirki eins og Bláa lónið, sem langflestir ferðamenn heimsækja hér á Íslandi. Ég hugsa að áhrif þessarar virkjunar verði frekar jákvæð á ferðamannaiðnað en neikvæð.

Herra forseti. Ég vil þakka þessa umræðu. Hún er ágæt. Hún hefur verið góð, nokkuð löng reyndar en sýnir eitt. Hún sýnir að menn eru í skotgröfum. Þetta er spurningin um að tapa eða sigra. Umhverfissinnar hafa verið ákaflega sigurvissir. Allt er tínt til. Einn sagði við mig: Það verður ekkert virkjað þarna. Fyrst ætlum við að fresta þessu og svo fáum við erlend samtök til að hjálpa okkur og komum í veg fyrir að nokkurn tíma verði virkjað þarna. Það er hernaðaráætlun umhverfissinna. Þeir tína allt til. Þeir segja: Það fæst ekki lán í þessa framkvæmd. Nú er komin yfirlýsing um það. Svo senda þeir Norsk Hydro bréf til að hræða þá frá. Allt er reynt. Svo koma meira að segja þau rök að það vanti orku, að virkja þurfi meira. Allt er tínt til.

Það var hárrétt hjá hv. þm. Jóni Kristjánssyni að umræðan er um hvort virkjað verði þarna eða ekki. Ef gefið verður eftir í þessu máli þá grafa umhverfisverndarsinnar nýjar skotgrafir. Þeir setja þá aftur í gang og hindra að nokkurn tíma verði virkjað. Það er hernaðaráætlunin. Sumir þeirra ganga jafnvel svo langt að segja að hvergi eigi að virkja.

Þeim sem horfa til fleiri sjónarmiða en náttúruverndarsjónarmiða er því stillt upp við vegg. Þeir neyðast til að samþykkja þetta. Þess vegna styð ég þessa þáltill.