Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Miðvikudaginn 17. nóvember 1999, kl. 21:30:13 (1725)

1999-11-17 21:30:13# 125. lþ. 27.1 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, EMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 125. lþ.

[21:30]

Einar Már Sigurðarson (andsvar):

Herra forseti. Enn koma fulltrúar vinstri grænna og fræða oss í máli þessu. Nú var okkur sagt að enginn hefði dregið í efa að Landsvirkjun hefði leyfi til virkjunar í Fljótsdal. Öðruvísi mér áður brá, því hér hafa ýmsir fulltrúar úr sama flokki haldið ýmsu öðru fram. En vonandi er þetta uppgötvun sem gerð hefur verið hér í matarhléi. Það var hins vegar sagt að ágreiningur væri um það hvort virkjunin væri undanþegin svokölluðu lögformlegu umhverfismati. Örlitla áréttingu er rétt að gera vegna þess að þegar hv. þm. Tómas Ingi Olrich mælti fyrir meirihlutaáliti umhvn. 1993, þá lét hann þau orð falla að bráðabirgðaákvæði II, þar sem um þetta undanþáguákvæði er fjallað, væri sett til þess að eyða allri óvissu um það hvernig farið verði með leyfi sem útgefin eru fyrir 1. maí 1994. Þar er því allur vafi af því tekinn. Og í samhengi við það sem hv. þm. sagði, að enginn drægi í efa að Landsvirkjun hefði leyfið, þá hlýtur þessi framsaga hv. þm. að taka allan vafa af því sem hún taldi ágreining um, sérstaklega í ljósi þess að í kjölfar framsöguræðu hv. þm. Tómasar Inga Olrichs komu upp hv. þm. sem þá voru í minni hluta og tóku undir álit framsögumannsins. Þar með staðfestu þeir þau orð sem hv. þm. Tómas Ingi Olrich, hafði um þetta. Hins vegar kom fram í máli hv. þm. Þuríðar Backman að hún vildi ekki stóriðju á Austurlandi og því er spurt: Hví skal þá virkjun fara í svokallað lögformlegt umhverfismat ef ekki á reisa stóriðju á Austurlandi? Hver skal þá kaupa orku úr þeirri virkjun?