Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Miðvikudaginn 17. nóvember 1999, kl. 21:54:01 (1731)

1999-11-17 21:54:01# 125. lþ. 27.1 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 125. lþ.

[21:54]

Árni Steinar Jóhannsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst makalaust að hv. þm. skuli láta sér detta í hug að biðja mig að svara fyrir hönd Steingríms J. Sigfússonar. Hann hefur verið þekktur fyrir að geta svarað fyrir sig sjálfur. Ég ætla því ekki að gera það.

En, hvar á að virkja? Ég ætla ekki að falla í þá gryfju að segja hvar á að virkja. Ég er hér til þess að marka stefnu, að ég hélt, og kosinn til þess. Ég ætla heldur ekki að gera tillögur um það hvar eigi að brúa o.s.frv., ef hv. þm. heldur það. Til þess eru aðrir menn ráðnir. Ég hélt að ég væri hingað kjörinn til að marka stefnu um framtíð og þróun þessa samfélags.

Ég fullyrði enn og aftur og stend við að ákvarðanir af þessu tagi, hálfopinberar eða næstum að öllu leyti opinberar, eru auðvitað landsmál. Þetta er ekki landsbyggðarmál. Þetta gildir um allt Ísland og ég hélt að það hefði komið skýrt fram í ræðu minni að ákvörðun um svo stórkostlega innspýtingu í efnahagskerfið, sem þessi verkefni undanfarin ár hafa verið, hefur áhrif á allt landið. Er það ekki landsmál að hingað hafa flust m.a. tvö þúsund fleiri en eðlilegt getur talist?