Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Miðvikudaginn 17. nóvember 1999, kl. 22:15:59 (1737)

1999-11-17 22:15:59# 125. lþ. 27.1 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, HBl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 125. lþ.

[22:15]

Halldór Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Ástæðan fyrir því að ég kem upp eru ummæli hv. þm. um forsrh. Þar sem ég er eini maðurinn í þingsalnum sem hef verið ráðherra fyrir Sjálfstfl. í þeirri ríkisstjórn sem þá sat þykir mér rétt að upplýsa nokkuð um þau mál sem hv. þm. gerði að umtalsefni.

Fyrst er að segja að sá hv. þm. sem hér stóð hafði uppi mjög háleitar og víðfeðmar hugmyndir í ríkisstjórninni um hvað skyldi virkja. Hann sá fyrir sér að hvert vatnsfallið af öðru yrði virkjað svo hægt væri að flytja rafmagn út með streng til Evrópu. Mér er það sérstaklega minnisstætt að þegar að því kom að virkja Dettifoss þá tók ég fram í ríkisstjórninni: Hingað og ekki lengra. Ég sit ekki í þeirri ríkisstjórn sem virkjar Dettifoss. Þannig var nú andrúmsloftið í þeirri ríkisstjórn.

Þegar talað er um það hverjir fari bak við lög og hverjir vilji ekki standa við þær reglur sem unnið er eftir vil ég minna á að virkjunarleyfi fyrir Fljótsdalsvirkjun var veitt fjórum dögum eftir kosningarnar 1991, af þáv. ráðherra Alþýðuflokksins, Jóni Sigurðssyni, sama manni og gerði það að úrslitaatriði, meðan við reyndum að draga saman í fjármálum ríkisins og spara, að gífurlegu fjármagni yrði varið til hafnarannsóknar á Keilisnesi með stóriðju þar fyrir augum og auðvitað stórvirkjanir á Austurlandi.

Í annan stað vil ég segja að hv. þm. Össur Skarphéðinsson gaf meðan hann var umhvrh. út framkvæmdaleyfi fyrir Fljótsdalsvirkjun. Ég hef það hér í höndum, 20. apríl 1994, þ.e. rétt rúmlega viku innan þess tímafrests sem bráðabirgðaákvæðið náði yfir í umhverfislögum.