Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Miðvikudaginn 17. nóvember 1999, kl. 22:22:49 (1742)

1999-11-17 22:22:49# 125. lþ. 27.1 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 125. lþ.

[22:22]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Halldór Blöndal er besti maður en hins vegar ekki alltaf með á nótunum. Vorið sem lögin um umhverfisvernd voru sett var ég nefnilega heilbrrh. og hafði engin afskipti af orkumálum. Þegar ég tók við orkumálunum og þar til ég hætti afskiptum af þeim vorið 1995, var Fljótsdalsvirkjun aldrei á dagskrá í iðnrn. Á vegum ráðuneytisins og Orkustofnunar var hins vegar tekinn saman listi og gefinn út í bók yfir alla mögulega og ómögulega virkjanakosti á Íslandi, yfir sjálfsagða virkjunarkosti sem og algjörlega fráleita. Bókinni var dreift til alþingismanna og kynnt á ríkisstjórnarfundi. Það er rétt að þegar hv. þm. Halldór Blöndal sá bókina þá sagðist hann vera á móti virkjun á Dettifossi. Ég svaraði honum því að það væri ég líka. Við vorum mjög sammála um það við hv. þm. En sú virkjun var aldrei á dagskrá í iðnrn. fremur en Fljótsdalsvirkjun þannig að svar hv. þm. við ræðu minni hér áðan byggist á því sem oft getur hent þann góða mann. Hann var ekki alveg með á nótunum.