Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Miðvikudaginn 17. nóvember 1999, kl. 22:26:00 (1744)

1999-11-17 22:26:00# 125. lþ. 27.1 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 125. lþ.

[22:26]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt hjá hv. þm. Halldóri Blöndal að umhverfismat á Fljótsdalsvirkjun skal ekki skýlaust fara fram samkvæmt ákvæðum laga um mat á umhverfisáhrifum. Andi þeirra laga er hins vegar sá að menn skuli ekki taka ákvarðanir um slíkar framkvæmdir öðruvísi en að slíkt mati fari fram. Þegar lög um mat á umhverfisáhrifum voru sett og undanþáguákvæði var gert þá var engum Fljótdalsvirkjun í huga, hvað þá aðrar virkjunarframkvæmdir sem hæstv. iðnrh. telur heimilar án þess að umhverfismat fari fram.

Tvö ár eru liðin síðan við jafnaðarmenn brugðumst við þessari niðurstöðu með tillöguflutningi hér á Alþingi. Nú síðast fyrir nokkrum dögum lögðum við fram lagafrv. þar sem lagt er bann við því að framkvæmdir, ekki bara við Fljótsdalsvirkjun heldur allar stækkanir og nýjar virkjanir sem heimildir hafa verið gefnar til áður, fari ekki af stað nema umhverfismat fari fram. Það er brot á anda laganna um umhverfismat að ráðamenn í þjóðfélaginu skuli ætla sér að skjóta fyrst og spyrja svo. Þeir ætla sér að taka ákvarðanir um framkvæmd af þessu tagi án þess að uppfylla þau ákvæði um mat á umhverfisáhrifum sem lögin mæla fyrir um. Þeim er það ekki til sóma og heldur ekki að reyna að opna bakdyr hér inn á Alþingi, fram hjá þeim reglum sem settar hafa verið í þessu efni.