Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Miðvikudaginn 17. nóvember 1999, kl. 22:31:07 (1746)

1999-11-17 22:31:07# 125. lþ. 27.1 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, HBl (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 125. lþ.

[22:31]

Halldór Blöndal (um fundarstjórn):

Herra forseti. Eins og fram kom í ræðu hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar þá var hann ekki að bera af sér sakir, þannig að rétt hefði verið að taka af honum orðið. Þvert á móti kom hann hér upp til þess að bera á annan þingmann sakir. Ég hef satt að segja aldrei fyrr kynnst hér annarri eins ósvífni enda var málflutningurinn með þeim hætti.

Ég endurtek það sem ég sagði áðan að ég er hér með í höndum þá auglýsingu sem ég gat um og ég tel mér skylt og rétt að lesa hana upp vegna þeirra ávirðinga sem hér voru bornar fram, með leyfi forseta:

,,Auglýsing um staðfestingu á legu Fljótsdalslínu I, vestari hluta frá Akureyri að Veggjafelli.

Samkvæmt skipulagslögum, nr. 19/1964, hefur ráðuneytið þann 20. apríl 1994 staðfest legu Fljótsdalslínu I frá Akureyri að Veggjafelli.

Uppdráttur fyrir legu háspennulínunnar hefur hlotið þá meðferð sem skipulagslög, nr. 19, 21. maí 1964, mæla fyrir um. Uppdráttinn hefur skipulagsstjórn ríkisins afgreitt til staðfestingar ráðherra.

Umhverfisráðuneyti, 20. apríl 1994.

Össur Skarphéðinsson. Ingimar Sigurðsson.``

Í ákvæði til bráðabirgða II í lögum um mat á umhverfisáhrifum stendur, með leyfi forseta:

,,Þrátt fyrir ákvæði 17. gr. laga þessara eru framkvæmdir samkvæmt leyfum útgefnum fyrir 1. maí 1994 ekki háðar mati á umhverfisáhrifum samkvæmt lögum þessum.``

Það er tíu dögum síðar. Svo geta menn velt fyrir sér hver er að svívirða hvern.