Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Miðvikudaginn 17. nóvember 1999, kl. 22:36:06 (1751)

1999-11-17 22:36:06# 125. lþ. 27.1 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 125. lþ.

[22:36]

Hjálmar Árnason:

Herra forseti. Á haustdögum 1995 náðust samningar og var tekin ákvörðun um að reisa þriðja kerskálann við álverið í Straumsvík. Þar með var rofin u.þ.b. 20 ára kyrrstaða í erlendri fjárfestingu varðandi stóriðju hér á landi. En það er óhætt að segja að á þessum 20 árum hafi mikið verið reynt af hálfu stjórnvalda á Íslandi til þess að laða hingað erlenda fjárfesta í stóriðju. Þrátt fyrir trú okkar á vilja erlendra aðila til þess að fjárfesta í stóriðju á Íslandi var staðreyndin samt sú að kyrrstaða ríkti hér í um 20 ára skeið. Vistvænir orkugjafar okkar Íslendinga reyndust ekki vera jafneftirsóknarverðir og við héldum. Fyrirtæki stóðu ekki í biðröðum til þess að komast hingað að okkar óbeisluðu vatnsorku eða gufuorku.

Við þurfum í þessu sambandi, herra forseti, að hafa í huga að frá fyrstu viðræðum við erlenda aðila hvað varðar virkjanir og stóriðju þá eru óravíddir að samningum og ég tala nú ekki um framkvæmdum. Það þurfa að fara fram rannsóknir, samningar, umræður um verð, fjárfestingu, mannafl, mat o.s.frv. Stóriðja og virkjanir eru með öðrum orðum unnin í langtímaáætlunum og það er einmitt á þeim vettvangi eins og öðrum sem það gildir að það þarf að veita rekstraraðilum ákveðna festu sem er grundvallaratriði í öllu atvinnulífi. En einmitt vegna þess að eðli málsins samkvæmt er unnið í langtímaáætlunum er mikilvægt að gerðir samningar standi.

Herra forseti. Með stækkun álversins í Straumsvík árið 1995 má segja að þess verður minnst sem táknræns fyrir upphaf þess efnahagsbata sem við nú njótum góðs af. Þá fyrst var kyrrstaðan rofin hvað varðar erlenda fjárfestingu og svo virðist sem við höfum fengið aukna trú og bjartsýni varð ríkjandi í íslensku atvinnu- efnahagslífi. Árangurinn hefur heldur ekki látið á sér standa: Vaxandi kaupmáttur, lækkandi skattar, við höfum náð tökum á ríkisfjármálum, vextir hafa lækkað og atvinnuleysinu ekki síst verið útrýmt.

Herra forseti. Samkvæmt upplýsingum frá Þjóðhagsstofnun liggur fyrir að árið 1997 var ábati íslenska efnahagslífsins af stóriðju 92 milljarðar kr. á 30 ára tímabili. Nú er rétt að spyrja sem svo, herra forseti: Hvernig væri íslenskt efnahagslíf, íslenskt atvinnulíf ef ekki hefði notið þessara 92 milljarða kr. sem með sanni má segja að séu verðmæti af stóriðju okkar hér á Íslandi? Það eru þau verðmæti sem vistvæn orka Íslendinga skapaði.

En þessi verðmæti kostuðu sínar fórnir og þarf ekki annað en líta til þeirra orkuvera sem reist hafa verið á umræddu tímabili og er óþarfi að telja þau hér upp. Þetta eru fórnir sem við höfum þurft að færa til þess að skapa þau verðmæti sem ég gat um. Og það er það mál sem við erum að fjalla um hér í hnotskurn, þ.e. 92 milljarða hagnaður inn í okkar samfélag andspænis ósnortinni náttúru og víðernum landsins. Það er nefnilega svo, herra forseti, að maðurinn er þurftarfrekur og maðurinn er hluti af náttúrunni. Við neyðumst til þess að velja og hafna. Nú stöndum við einmitt frammi fyrir því að við þurfum að velja á milli óhemjufagurs landslags og áframhaldandi fjárfestinga í stóriðju og atvinnuuppbyggingu. Um það snýst þetta mál og ekkert annað. Við þurfum að velja.

Inn í umræðuna hafa blandast orð eins og lögformlegt umhverfismat og á stundum í umræðunni hefur því orðalagi verið hagað þannig að skilja má þannig að verði ekki framkvæmt svonefnt lögformlegt umhverfismat sé alls ekki um neitt umhverfismat að ræða.

Því er auðvitað ekki svo farið, herra forseti. Það má fullyrða að enginn lófastór blettur á landi okkar hafi verið jafnmikið rannsakaður og það svæði sem hér er til umræðu við Eyjabakka og í tengslum við Fljótsdalsvirkjun. Umhverfismat hefur farið fram á því svæði í rauninni allt frá 1960 en þó markvisst síðan 1975. Ég fullyrði það, herra forseti, að það er rangt sem ýmsir hv. þm. hafa haldið fram, að um sé að ræða keypta niðurstöðu.

Við skulum átta okkur á því hverjir hafa unnið að þessu mati. Í fyrsta lagi eru það starfsmenn Orkustofnunar sem eiga engra hagsmuna að gæta. Það er þeirra hlutverk að leggja mat á umhverfið og kosti til virkjunar. Í annan stað eru það a.m.k. þrjú hlutlaus ráðgjafarfyrirtæki sem byggja tilveru sína á því að veita hlutlægt mat. Ég nefni jafnframt ýmsa sérfræðinga á vegum Náttúrufræðistofnunar eða með öðrum orðum, herra forseti: Ýmsir af helstu vísindamönnum landsins hafa komið beint eða óbeint að umhverfismati varðandi Fljótsdalsvirkjun. Þá má bæta við þingnefndum sem hafa heimsótt staðinn, hafa haldið námskeið varðandi Fljótsdalsvirkjun. Um fátt hefur verið skrifað og rætt meira í þjóðfélaginu að undanförnu og í fjölmiðlum en mat á umhverfisáhrifum vegna Fljótsdalsvirkjunar. Með öðrum orðum þá fer fram og hefur farið fram markvisst mat.

Hitt er svo annað mál að í því mati sem fram hefur farið er ekki fylgt út í æsar því sem kallað er lögformlegt umhverfismat, þ.e. kæruleiðinni er sleppt. Aðferðin að öllu leyti er sú sama nema kæruleiðinni er sleppt. Og hvers vegna er kæruleiðin ekki farin?

Ég vil nefna þrjár ástæður fyrir því, herra forseti. Í fyrsta lagi, vegna bráðabirgðaákvæðis laga um umhverfismat þá er rekstrarleyfið til staðar og þar af leiðandi þessi lögformlega kæruleið í rauninni útilokuð. Til marks um það hefur ítrekað verið bent á að framkvæmdir við þessa virkjun hófust, eins og sjá má, fyrir austan.

Í annan stað nefni ég sem ástæðu tilboð til yfirvalda á Íslandi og Landsvirkjunar frá Norsk Hydro, tilboð um að reisa hér álverksmiðju og til þess þarf orku og við þurfum að svara því tilboði á þeim tíma sem viðsemjendur okkar hafa lagt til.

Í þriðja lagi hefur leyfið ekki verið afturkallað þrátt fyrir ýmis tækifæri til þess. Áðan var m.a. nefnt að fyrrv. ríkisstjórn og þáv. hæstv. umhvrh. heimilaði Fljótsdalslínu I. Eins og nafnið bendir til þá byggir Fljótsdalslína I að sjálfsögðu á því að Fljótsdalsvirkjun sé til staðar. Þar gafst þáv. ríkisstjórn færi á að afturkalla leyfið. Segja má að hv. Alþingi gafst á síðasta vetri tækifæri til þess að afturkalla leyfið þegar veitt var leyfi til virkjunar við Bjarnarflag. Þá fór fram ítarleg umræða hér sem og í hv. iðnn., en hvergi og aldrei í þeirri umræðu kom upp að afturkalla starfsleyfið vegna Fljótsdalsvirkjunar.

Virkjunarleyfið stendur með öðrum orðum og þetta eru þær þrjár ástæður sem ég tel að skipti máli hvað það varðar að kæruleiðin er ekki farin núna.

Herra forseti. Það er mjög mikilvægt að Alþingi sýni ákveðna festu. Hér hefur verið nefnt að við þurfum að geta treyst lögum sem sett hafa verið. Og þá þurfa einnig þeir aðilar sem koma að rekstri, viðsemjendur okkar, fyrirtækin, að geta treyst því að þau lög og þeir samningar sem gerðir hafa verið muni standa og gildir það einnig um Fljótsdalsvirkjun.

[22:45]

En af hverju ekki að nýta kærufrestinn? Tíminn leyfir það ekki og til þess þurfum við að taka afstöðu. Viljum við taka áhættu? Hver er ávinningurinn og hver er áhættan?

Við skulum aðeins líta á áhættuna og skoðum þá umsögn frá Náttúruverndarráði. Árið 1981 segir Náttúruverndarráð að vissulega sé um að ræða fallegt landslag en þar þurfi meiri hagsmunir að ganga fyrir minni hagsmunum. Náttúruverndarráð gerir ekki athugasemdir árið 1981. Það staðfestir þessa skoðun sína 1991. Fegurðin er til staðar en byggðahagsmunir og efnahagsleg sjónarmið þurfa að ráða. Fyrir sitt leyti gerir Náttúruverndarráð ekki athugasemd við þetta árið 1991.

Það er rétt, herra forseti, að benda á að í athugasemdum sem bárust Náttúruverndarráði er ekki fjallað um lón við Eyjabakka heldur fyrst og fremst um aðveituskurði og möstur sem áttu að liggja yfir þvert og endilangt landið og m.a. þáv. hæstv. umhvrh. Össur Skarphéðinsson heimilaði. Þessu hefur verið breytt, möstrin hafa verið felld burt og hinir opnu skurðir einnig verið felldir burt.

Hvað, herra forseti, hefur þá breyst? Ég tel að það sé einkum þrennt.

Í fyrsta lagi hefur tíðarandinn breyst. Árið 1995 var hér atvinnuleysi og stöðnun en atvinnuleysið hefur sem betur fer er horfið. Þar með hefur gildismatið breyst. Hins vegar hafa ýmsir fullyrt að þjóðin vilji lögformlegt umhverfismat. Jafnframt hefur komið fram að í tvígang á tíu ára bili framkvæmdi Félagsvísindastofnun Háskólans skoðanakönnun meðal þjóðarinnar og samkvæmt henni virðist lítið hafa breyst á þeim tíma. Með öðrum orðum eru fullyrðingar um vilja þjóðarinnar mjög hæpnar.

Í öðru lagi hefur það líka breyst að kratar, sem lengst af hafa barist fyrir Fljótsdalsvirkjun og lagt mikið á sig til þess, eru komnir í stjórnarandstöðu.

Í þriðja lagi koma til umhverfisrök sem skipta miklu máli. Sú breyting hefur orðið á að heiðagæsin virðist hafa tekið fasta búsetu við Eyjabakka sem ekki var áður. Árið 1975 voru rétt rúmlega 1.000 pör geldfugla við fellingar þar. Þetta eru þær breytingar sem hafa orðið. Það hefur verið gerð úttekt á hreindýrastofninum og fátt bendir til þess að framkvæmdir muni ógna honum. Gróður telst ekki það sérstakur eða einstakur að honum sé hætta búin. Sama gildir um annað fuglalíf. Tvennt stendur eftir af umhverfisrökum: gæsirnar og hinar sérkennilegu jarðmyndanir, svokallaðir hraukar.

En hver er ávinningurinn, herra forseti, andspænis þessum tveimur þáttum? Eini tilgangurinn með því að virkja þann vistvænasta kost sem til er hvað varðar virkjanir, vatnsorku okkar, er að efla hagsæld í landinu. Ávinningurinn er ferns konar.

Í fyrsta lagi sá að nýta vistvæna orkugjafa eins og hér hefur verið nefnt í ræðum. Það er siðferðileg skylda okkar að nýta vistvæna orkugjafa okkar vegna þess að þeir eru takmarkaðir og valið stendur á milli þess að nýta þá eða kol, olíu eða kjarnorku.

Í annan stað, herra forseti, eru það hin efnahagslegu rök. Það eru mikilvæg efnahagsleg rök að fjölga stoðum efnahagslífsins þannig að sveiflur í efnahagslífi verði minni. Ég nefni þar enn og aftur þann 92 milljarða ágóða sem við höfðum af stóriðju fram til ársins 1997. Þessi framkvæmd er talin auka þjóðarframleiðslu um 1,2% og skiptir miklu máli.

Ég nefni í þriðja lagi byggðaþróunina, sérstöðu Austurlands þar sem meiri frumframleiðsla er en í öðrum landsfjórðungum og er líklega meginástæðan fyrir hinum mikla brottflutningi af Austurlandi. Eins og fram hefur komið í ræðum manna þá eru þetta talin veigamikil rök, að snúa byggðaþróun þar við.

Í fjórða lagi nefni ég öryggisrökin sem hér hafa verið reifuð. Um það bil 40% af nýtanlegri vatnsorku okkar er norðan Vatnajökuls en megnið af raforkuframleiðslu er nú á Þjórsár- og Tungnaársvæðinu. Það er óöruggt svæði. Það er ekki mikið öryggi fyrir efnahagskerfi okkar að hafa obbann af raforkuframleiðslunni á sama stað.

Áfram mætti telja en ég sé að tími minn er senn á þrotum. Við stöndum, herra forseti, frammi fyrir því að þetta svæði hefur verið metið meira og minna frá 1975. Leyfið er til staðar og verður ekki afturkallað nema með lögum. Tilboð um að nýta þessa orku í Fljótsdal stendur. Við þurfum að meta manninn, hagsæld efnahagslífs og byggðar í landinu andspænis heiðagæsunum og hraukunum. Það þurfa hv. alþingismenn að gera áður en jólaleyfi hefst.