Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Miðvikudaginn 17. nóvember 1999, kl. 22:51:36 (1752)

1999-11-17 22:51:36# 125. lþ. 27.1 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 125. lþ.

[22:51]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rangt hjá hv. þm. að mat hafi farið fram. Hins vegar er það rétt hjá hv. þm. að fjöldi rannsókna hefur farið fram. En á þær rannsóknir þarf að leggja mat.

Hæstv. iðnrh., hæstv. utanrrh. og raunar hæstv. forsrh. hafa lýst því yfir að nú sé verkefni Alþingis Íslendinga að leggja mat á þær rannsóknir sem tíundaðar eru í þessum skýrslum. Nú vil ég spyrja hv. formann iðnn.: Hvert eigum við, hv. alþingismenn, að beina óskum okkar um frekari rannsóknir og mat fagaðila á niðurstöðum eða skorti á niðurstöðum úr þeim rannsóknum sem þessi skýrsla hefur tíundað?

Ég vil benda hv. þm. á eitt atriði, virðulegi forseti, í þessari skýrslu sem gefur tilefni til frekari rannsókna. Á bls. 133 í skýrslunni segir um dýralíf, sem hv. þm. nefndi í sinni ræðu:

,,Þrátt fyrir að rannsóknir á dýralífi við Eyjabakka hafi nú staðið yfir í hartnær 30 ár liggja ekki fyrir svör um það hvaða áhrif myndun lóns á Eyjabökkum muni hafa á dýralíf.``