Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Miðvikudaginn 17. nóvember 1999, kl. 22:56:24 (1755)

1999-11-17 22:56:24# 125. lþ. 27.1 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 125. lþ.

[22:56]

Hjálmar Árnason (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. hvatninguna. Hún þurfti nú ekki að koma því að ég hef lesið þær ágætu skýrslur sem fylgja þáltill. þeirri sem hér er til umræðu.

Varðandi byggðamálin kemur fram í allri þeirri lesningu sem um er að ræða og þm. hv. hefði getað nefnt líka, að við getum byggt á reynslu annarra þjóða. Þar á meðal, eins og fram kemur, reynslu Norðmanna af því að byggja stóriðju í byggðarlögum sem farið var að fjara verulega undan. Við getum séð hvaða breyting hefur orðið í þeim byggðarlögum. Þar hefur orðið mjög jákvæð breyting, þar ríkir bjartsýni, þar hefur orðið fólksfjölgun og þannig má áfram að telja. Það er eitt af því sem við hljótum að skoða og meta þá reynslu.

Ég tel hins vegar rétt að leggja áherslu á að í þessu máli eins og í öllum öðrum er ekki til neinn einn stóridómur, eins og mér finnst stundum ætlað í umræðunni. Það er enginn stóridómur til og enginn einn hefur alfarið rétt fyrir sér. Helstu vísindamenn og sérfræðingar íslensku þjóðarinnar hafa komið að því að rannsaka og, ég ítreka, meta þau áhrif sem breytingar í tengslum við Fljótsdalsvirkjun kunna að hafa á náttúruna. Okkar er síðan að taka afstöðu til þessa mats sérfræðinganna. Á einhverju stigi þurfum við að segja: Við erum ósammála eða við erum sammála. Við erum reiðubúin að taka þá áhættu, láta manninn njóta vafans og fórna einhverju til þess að geta aukið hér efnahag og velsæld.

Á einhverju stigi kemur að því og um það verða ekki allir sammála. Á einhverju stigi þarf að höggva á hnútinn og þá eru einhverjir sammála en aðrir sitja eftir með sárt ennið og segja einfaldlega: Ég varð undir.

Þannig er lýðræðið.