Upplýsingatækni í skólum

Fimmtudaginn 18. nóvember 1999, kl. 10:20:12 (1762)

1999-11-18 10:20:12# 125. lþ. 28.2 fundur 170. mál: #A upplýsingatækni í skólum# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 125. lþ.

[10:20]

Fyrirspyrjandi (Svanfríður Jónasdóttir):

Herra forseti. Ég get út af fyrir sig verið sammála hæstv. ráðherra um að ekki skipti höfuðmáli hver veiti þjónustuna svo framarlega sem þjónustan er veitt, allir eigi að henni aðgang og skólum og þar með nemendum sé ekki mismunað. E.t.v. hafa menn áhyggjur af því nú vegna breytinganna að ekki verði séð fyrir öllum þeim þörfum skólakerfisins og að hætta sé á ákveðinni mismunun. Þess vegna er mikilvægt að fram komi hvernig ráðuneytið hyggst bregðast við. Hvernig hyggst ráðherra tryggja að tilteknir hlutir fái framgang þegar hið opinbera hefur ekki vald á þeim lengur eins og það hefur í dag.

Mig langar að lesa upp það sem forráðamenn í fræðslumálum, sem sendu frá sér yfirlýsingu, töldu mikilvægt að hafa að leiðarljósi og óyggjandi hagsmuni skólastarfsins. Þeir nefna ráðgjöf og aðstoð vegna notkunar kennslu- og hjálparforrita þar sem fyrirsjáanlegt er að þáttur hugbúnaðar í námi og kennslu muni vaxa í náinni framtíð. Þar er bent á ráðgjöf og aðstoð varðandi kennslufræðileg mál. Þeir tiltaka rekstur mennta- og skólavefs þar sem yrði að finna almennar upplýsingar um skólastarf þeirra, námsframboð, möguleika til fjarnáms o.s.frv. Einnig er komið inn á þátttöku í samvinnu um rekstur netstýrikerfa í skólaumhverfi, kynningar á nýjungum sem að þeim lúta og sameiginlega tækniaðstoð. Þeir lögðu áherslu á svæðisbundna þjónustu við staðarnetsskóla í samstarfi við heimamenn og uppsetningu og þróun sérhæfðrar leitarvélar fyrir íslenskt skólaumhverfi. Þeir lögðu líka áherslu á samstarf um þróunarvinnu við smíði gagnagrunns sem gerir skólanum kleift að fylgjast með og skipuleggja skólastarf samkvæmt markmiðum námskrár. Þarna kemur og fleira fram sem lýtur að sérhæfðum þörfum skólanna.

Eðlilega hafa menn áhyggjur af því --- kannski töldu menn að þær áhyggjur staðfestar þegar ekkert tilboð kom í netið --- að hér sé um að ræða verkefni sem einkaaðilar hafi ekki mikinn áhuga á. Þess vegna er mikilvægt að hér komi skýrt fram hvaða leiðir hæstv. ráðherra vill fara og hvernig hann hyggst mæta þessum þörfum.