Netþjónusta við skóla

Fimmtudaginn 18. nóvember 1999, kl. 10:28:04 (1765)

1999-11-18 10:28:04# 125. lþ. 28.3 fundur 171. mál: #A netþjónusta við skóla# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 125. lþ.

[10:28]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Spurt er: ,,Hvernig sér ráðherra fyrir sér að sérhæfðri skólaþjónustu verði sinnt eftir að Menntanetið, sem hefur verið eina fyrirtækið/stofnunin í landinu sem hefur sérhæft sig í netþjónustu við skóla og menntastofnanir, hefur verið selt án slíkra skilyrða?``

Taka ber fram að það hefur ekki verið selt án neinna skilyrða því að viðræður fara fram um sölu á netinu. Í apríl árið 1996 tók menntmrn. að sér rekstur Íslenska menntanetsins eftir að ríkissjóður keypti netið og fól það Kennaraháskóla Íslands til umsjónar. Við kaupin réð það sjónarmið miklu að tryggja netþjónustu fyrir skólann. Jafnframt var þess geti að fyrirtækið yrði ekki lengur í ríkiseign en nauðsyn krefði.

Á þeim rúmu þremur árum sem liðin eru hefur orðið ör þróun á þessu sviði og bjóða nú mörg fyrirtæki netþjónustu á samkeppnismarkaði. Að mati sérfróðra hafa einkafyrirtækin nú forsendur til að reka netþjónustu fyrir skóla og geta boðið skólum góða þjónustu á hagstæðari kjörum en áður hefur þekkst. Jafnframt sinna margir framhaldsskólar nú sjálfir þeirri þjónustu sem Íslenska menntanetið veitti áður og nokkur sveitarfélög reka netþjónustu fyrir grunnskóla.

Ég hef beitt mér fyrir úttekt á þörf skóla fyrir nettengingar sem er hluti af úttekt á fjarskiptaþörf sem unnið er að á vegum verkefnisstjórnar ríkisstjórnarinnar um upplýsingasamfélagið. Niðurstöður þeirrar úttektar eru væntanlegar á næstunni og af þeim mun m.a. ráðast til hvaða ráðstafana verði gripið til að tryggja nettengingar skóla eftir sölu Menntanetsins. Menntmrn. hefur skyldum að gegna við að tryggja að skólar hafi aðgang að þessari þjónustu. Því er hins vegar ekki skylt að reka slíka þjónustu sjálft. Afskipti ráðuneytisins af netþjónustu ættu einungis að vera óbein, t.d. með því að leita hagstæðra heildarsamninga fyrir skóla um slíka þjónustu en hún síðan alfarið falin einkaaðilum. Áform hafa verið um að byggja upp kennslufræðilega ráðgjöf á sviði upplýsingatækni innan Kennaraháskóla Íslands sem mun að hluta til koma í stað þeirrar þjónustu sem Íslenska menntanetið hefur veitt. Æskilegt kann að vera að aðrir aðilar láti einnig slíka þjónustu í té. Ekki er útilokað að einkafyrirtæki geti veitt hana. Hvað varðar menntavef eða þjónustu við skóla á veraldarvefnum þá ber menntmrn. vissa ábyrgð á innihaldi og uppbyggingu slíks vefs, bæði gagnvart íslenska skólakerfinu og einnig vegna alþjóðlegs samstarfs. Er ljóst að ráðuneytið mun í framtíðinni rækja þessar skyldur hvort sem það verður með samningum við einkaaðila eða með öðrum beinum afskiptum.

Þá er spurt: ,,Hvaða aðili mun taka við hlutverki Menntanetsins varðandi fjarmenntun KHÍ og VMA?``

Sá aðili sem tekur við rekstri Íslenska menntanetsins mun væntanlega sjá um nettengingar nemenda, kennara og skóla sem Menntanetið býður nú nema þeir kjósi að leita annað um þá þjónustu. Bæði KHÍ og VMA reka nú þegar sérhæfða þjónustu fyrir kennara vegna fjarkennslu, fyrir framsetningu kennsluefnis á vef og gerð gagnvirkra prófa. Þeir hafa tekið skref til að þróa þá þjónustu frekar. Kennaraháskólinn hefur t.d. tekið í notkun nýjan fjarkennsluhugbúnað í framhaldi af útboði ráðuneytisins á þeim búnaði fyrr á árinu. Rekstur þess búnaðar er nú á vegum skólans. Skólinn hefur einnig unnið að endurskipulagningu eigin tölvukerfis sem taka mun við eftir að Menntanetið hættir þjónustu við skólann. Verkmenntaskólinn á Akureyri hefur einnig verið að þróa nýjar leiðir við fjarkennslu sem byggist á sérþekkingu sem fyrir hendi er innan skólans.

Í þriðja lagi er spurt: ,,Telur ráðherra að fámennir skólar í litlum sveitarfélögum sitji við sama borð og hinir fjölmennari í stærri sveitarfélögunum hvað varðar möguleika og þátttöku þegar búið er að selja Menntanetið án nokkurra kvaða?``

Aðstaða fámennra skóla í litlum sveitarfélögum fyrir þátttöku í upplýsingasamfélaginu ræðst annars vegar af þeim möguleikum sem þeir hafa til að tengjast netinu og hins vegar hvaða innihaldi þeir hafa aðgang að. Eins og áður segir mun menntmrn. beita sér fyrir því að fyrir hendi sé innihald á menntavef sem sé aðgengilegt öllum. Einnig er fyrir hendi fjarkennsluhugbúnaður sem menntmrn. átti frumkvæði að því að gera og um var samið.

Hvað varðar möguleika smærri og væntanlega afskekktra skóla til greiðra nettenginga þá ræðst aðstaða þeirra á þessu sviði fyrst og fremst af því hvernig tekst til almennt með uppbyggingu fjarskipta og gagnaflutningskerfis í landinu fremur en þjónustu Menntanetsins sem slíks. Einnig mun menntmrn. leita óbeinna leiða til að tryggja öllum skólum viðeigandi þjónustu.