Netþjónusta við skóla

Fimmtudaginn 18. nóvember 1999, kl. 10:36:45 (1768)

1999-11-18 10:36:45# 125. lþ. 28.3 fundur 171. mál: #A netþjónusta við skóla# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 125. lþ.

[10:36]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Varðandi aðalnámskrána þá gerir hún ekki annað en setja skólunum ákveðið markmið við notkun þeirrar tækni sem fyrir hendi er. Hún leggur ekki nýjar skyldur á skólana varðandi tækjakaup eða annað slíkt. Hún gerir hins vegar ráð fyrir að menn noti þau tæki sem eru fyrir hendi í skólunum mun markvissar en áður. Til þess verða menn að líta og hljóta að fagna því að fyrir liggi áætlanir um hvernig skynsamlegt er að nota tækin og tæknina í öllum greinum náms eins og námskráin gerir ráð fyrir.

Varðandi hinn þáttinn sem hv. fyrirspyrjandi hreyfði, um bandbreiddina og annað slíkt, þá er það ekki á verksviði menntmrn. Eins og ég sagði hefur menntmrn. látið hefja sérstaka úttekt á hvernig þessu er háttað. Við munum í ljósi þess setja fram sjónarmið okkar og kröfur. Við teljum óskynsamlegt að gera það fyrr en fyrir liggur heildarmat sem ekki liggur fyrir núna.

Að draga það í efa að Íslendingar séu í fremstu röð á þessu sviði finnst mér ekki sanngjarnt miðað við að t.d. í Bandaríkjunum tala menn um að gott sé ef 30% af skólum séu nettengdir. Hér eru allir skólar í landinu tengdir inn á netið. Ekkert land í heiminum sem hefur jafnvíðtæka þjónustu við skóla á þessu sviði og við höfum. Það er alls ekki verið að ræða um að draga úr kröfum varðandi þjónustu við skólana, varðandi endurmenntun kennara og annað slíkt við að selja Íslenska menntanetið. Það er ekki tengt Íslenska menntanetinu. Við erum að tala um ákveðinn hluta af þessu kerfi sem er hér fyrir hendi en ekki um að draga úr þeim kröfum sem við gerum varðandi nýtingu á tækninni, endurmenntun kennara og gerð kennsluhugbúnaðar. Fjárframlög til þess hafa einmitt verið stóraukin á þessu ári.