Jöfnun námskostnaðar

Fimmtudaginn 18. nóvember 1999, kl. 10:39:03 (1769)

1999-11-18 10:39:03# 125. lþ. 28.4 fundur 182. mál: #A jöfnun námskostnaðar# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi KLM
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 125. lþ.

[10:39]

Fyrirspyrjandi (Kristján L. Möller):

Herra forseti. Hæstv. forsrh. skipaði í september 1997 nefnd samkvæmt tilnefningu allra þáverandi þingflokka til að fjalla m.a. um byggðamál í tengslum við breytingu á kjördæmaskipun. Ég var skipaður í þessa nefnd fyrir þingflokk jafnaðarmanna.

Nefndin skilaði skýrslu sinni í október 1998. Meðal fjölmargra tillagna sem full samstaða var um í nefndinni var eftirfarandi tillaga um jöfnun námskostnaðar, með leyfi forseta:

,,Framlög til jöfnunar námskostnaðar verði aukin um helming, þ.e. 230 millj. kr. á næstu þremur árum.``

Herra forseti. Hér á hinu háa Alþingi hefur hæstv. forsrh. nokkrum sinnum verið spurður út í framkvæmd þessara tillagna. Í öllum svörum hans hefur komið fram að staðið yrði við að ná þessu takmarki í þremur jöfnum áföngum, í fyrsta sinn á fjárlögum ársins 2000.

Í minnisblaði Byggðastofnunar um námskostnað í dreifbýli sem nýlega var lagt fyrir fjárln. segir m.a. að í fjárlögum 1999 hafi þessi liður verið 228,2 millj. kr. og einungis verið hækkaður um verðlagsbreytingar. Þar segir að samþykkt nefndar forsrh. virðist því ekki hafa komist til skila við fjárlagagerðina. Því er talið nauðsynlegt að þetta verði lagfært í umfjöllun Alþingis um fjárlagafrv. ,,Ofangreindur fjárlagaliður, jöfnun á námskostnaði, þarf því að hækka um 76,7 millj. kr. þannig að hann verði alls 311,7 millj. kr. á árinu 2000,`` segir í minnisblaði Byggðastofnunar.

Ég vek athygli þingheims á því að í þessum tölum hefur verið tekið tillit til hækkunar á þessum lið um 68 millj. kr. frá 1998--1999. Tillögur byggðanefndar forsrh. voru með öðrum orðum um viðbót miðað við fjárlög 1999. Ekki þarf að fjölyrða um nauðsyn þessara jöfnunargreiðslna fyrir fólk á landsbyggðinni þar sem framhaldsskólar eru ekki. Slíkar jöfnunargreiðslur eru réttlætismál og þær verður að hækka til þess að jafna þennan mismun að fullu.

Fjölmargir nemendur á landsbyggðinni hafa þurft að hætta námi vegna mikils kostnaðar sem því fylgir að sækja skóla fjarri heimabyggð sinni. Einnig er rétt að minna á sérhæfðari framhaldsskóla sem eru e.t.v. einungis reknir á höfuðborgarsvæðinu. Því fylgir aukinn kostnaður. Jöfnun námskostnaðar að fullu er því ekki einungis sanngjarnt réttlætismál heldur einnig nútímaleg byggðastefna. Sérstaklega vil ég leggja áherslu á þetta mál með tilliti til bænda. Þar er vel þekkt að unglingar verða að fara að heiman strax að grunnskólanámi loknu til að reyna að afla sér tekna fyrir framhaldsskólanámi.

Herra forseti. Fyrirspurn mín er til hæstv. menntmrh. og er svohljóðandi:

,,Hvernig verður staðið við fyrirheit um að veita 230 millj. kr. til viðbótar til jöfnunar námskostnaðar á næstu þremur árum eins og fram kom í tillögum svokallaðrar byggðanefndar forsætisráðherra sem allir þingflokkar stóðu að á 123. löggjafarþingi 1998--1999?``