Jöfnun námskostnaðar

Fimmtudaginn 18. nóvember 1999, kl. 10:50:07 (1774)

1999-11-18 10:50:07# 125. lþ. 28.4 fundur 182. mál: #A jöfnun námskostnaðar# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., EKG
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 125. lþ.

[10:50]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir frumkvæðið og hæstv. menntmrh. fyrir greinargóð svör. Sem betur fer hefur tekist að auka mjög verulega fjárframlög til jöfnunar á námskostnaði á síðustu árum eins og kom fram í máli hæstv. ráðherra. Eitt af því sem er mikilvægt í því sambandi er að í fyrsta skipti var opnað á möguleika fólks í iðnnámi til að njóta fyrirgreiðslu til jöfnunar á námskostnaði fyrir um það bil tveimur árum. Það skipti gríðarlega miklu máli.

Ég tel alveg sjálfsagt og að það hljóti að vera á verksviði Alþingis að ganga frá því nú við fjárlagagerðina að staðið verði að fullu við þau fyrirheit sem gefin voru og hæstv. ráðherrar hafa lýst stuðningi sínum við. Ég treysti því að um það muni nást víðtæk samstaða á þinginu. Það kom fram í máli hæstv. ráðherra að hann er áhugasamur um að reynt verði að bæta úr þessu vegna þess að allir sjá að þetta er eitt af stærstu málunum sem við er að etja á landsbyggðinni. Það er nógu erfitt fyrir fólk sem þannig er í sveit sett að þurfa að sjá á bak börnum sínum til náms í fjarlægum landshlutum þó ekki bætist við að þurfa líka að hafa fyrir því að leggja fram mikla peninga umfram það sem þyrfti ef fólk byggi í nágrenni við skólann.